Rúmir þrír mánuðir til stefnu og fram að þessu hafði markaðsdeild Disney haldið hlutunum heldur leyndum hvað varðar nýju Star Wars myndina um yngri Han Solo.

Orðrómar voru farnir að fljúga um fordæmalaust kaos á bakvið tjöldin hjá Lucasfilm og þótti mörgum líklegt að dagsetningin yrði færð. En eftir að hafa tryggt sér auglýsingahólf hjá Ofurskálinni miklu er trúlegt að aðstandendur viti hvað þeir eru að gera.

Fyrsta Solo: A Star Wars Story kitlan er nýlent og gefur upp smjörþefinn á fílingnum sem bíður aðdáendum í lok maí, og verður vonandi létt og fjörugt huggunarmeðal fyrir alla sem gúdderuðu ekki The Last Jedi.

Þetta er ekki mikið, en eitthvað þó. Lítur út eins og bíómynd allavega. Fögnum því.

Solo: A Star Wars Story er bæði leikstýrð af teyminu Phil Lord & Chris Miller (The Lego Movie, 21-22 Jump Street) og Ron Howard (The Dilemma), og skrifuð af feðgunum Jon og Lawrence Kasdan.

Alden Ehrenreich fer með titilhlutverkið kröfuharða þar sem mikil pressa hvílir á honum með vonir um að hann hafi rétta Ford-sjarmann í sér. Emilia Clarke, Donald Glover, Woody Harrelson, Thandie Newton og Paul Bettany fara einnig með hlutverk í myndinni.

The Last Jedi er annars enn í sýningum.
Svona fyrir áhugasama.

Eftir Solo verður alveg rúmt ár í nýja Star Wars mynd.
Ímyndið ykkur!