Samtímalegt sögusvið þessarar ljúfsáru kvikmyndaperlu er fátæktrarhverfið Ferentari í Búkarest, þar sem hinn fertugi mannfræðingur Adi hefur búsetu til þess að rannsaka dægurlagatónlist rómanskra sígauna. Leiðsögumaður Adi í þessum glæpakvalda jaðarheimi er fyrrum tukthúsmeðlimurinn Alberto, og fyrr en varir hefur hafist ólíklegt ástarsamband á milli þessara gjörólíku manna innan um vafasamar aðstæður og vandasamt umhverfi.

Þó svo að menningarlegt sögðusvið og lífshlaup persónanna séu hérlendis kvikmyndagestum eflaust framandi, ætti hver sem er að geta fundið sig fullkomlega innsaumaðan í atburðarrás myndarinnar. Kvikmyndahátíðin, eins og hver annar vettvangur, bíður upp á sína eigin formúlu, sem og kvikmyndalegur flokkur samkynhneigðra sagna. Kvikmyndahátíðagesturinn mun ekki finna neina af þessum formúlum í „Soldiers“, sem í stað þess að bregðast væntingum hans fer með þær alfarið á nýjar hæðir. Framsetning ástarsambandsins er svo mannleg og sönn að myndin öðlast einstaka virkni og grípur þannig áhorfandan með sér í örvæntingafullt ferðalag.

Hér er raunsæið allsráðandi, þar sem atburðarrás myndarinnar virðist oft á tíðum gleymast í einskonar stefnuleysi. Slíkt fellur hinsvegar í skugga framsetningu ástarsambandsins, sem er myndinni í raun verulega til bóta. Þar með myndast fullkomin speglun á persónulegu ferðalagi hins hlédræga Adi, sem setur sitt líf og sína betri vitund sífellt á hilluna í ljúfsáru og óheilbrigðu sambandi sínu við hinn óslípaða Alberto.

„Soldiers“ er kvikmynd alfarið þess virði að sjá, sem fjallar um nautnalöngun mannsins, leitina að hamingju og það göfuga markmið að þrátast við að halda áfram að finna fegurð í ósanngjörnum heimi.