Flestir sem fylgjast eitthvað með kvikmyndum þekkja til költ-sorpsins The Room, ef ekki allir. Jafnvel fólk sem hefur ekki séð hana hefur að öllum líkindum séð búta úr henni eða heyrt hana kvótaða milljón sinnum án þess að fatta það.

Myndin, rétt eins og mannskrípið Tommy Wiseau, er algjör gimsteinn, og hefur núna James Franco skilað af sér verkefni sem byggir á bókinni sem leikarinn Greg Sestero skrifaði um upplifun sína á myndinni, og einkennilega manninum á bakvið hana.

Franco leikur sjálfan Wiseau og bróðir hans, Dave, fer með hlutverk Gregs. The Disaster Artist segir frá vinasambandi þessara manna og tilurð bíómyndarinnar sem enginn bjóst við því að yrði seinna meir séð sem sögulega misheppnaðan sigurvegara.

Með önnur hlutverk fara Seth Rogen, Zack Efron, Alison Brie, Sharon Stone, Josh Hutcherson, Zoey Deutch, Bryan Cranston (leikandi sjálfan sig) og miklu, miklu fleiri.

Tékkið á fyrstu alvöru stiklunni. Myndin fer síðan í almennar sýningar 29. desember. Góð hátíðargjöf.