Margir bíógestir vestanhafs sem sáu myndina 13 Hours (þá nýjustu frá Michael Bay) urðu fyrir litlu sjokki þegar frumsýndur var lítill trailer á undan myndinni sem gaf upp kunnuglegt nafn en greindi frá svakalega litlu. Eins og heimurinn sé ekki nógu mikið á hvolfi þegar kemur mynd frá Bay sem fær ekki eintóma sleggjudóma, þá kom stiklan fyrir 10 Cloverfield Lane eins og þruma úr heiðskýru lofti. Er loksins komið Cloverfield framhaldið sem margir hafa beðið eftir?

Paramount ákvað að deila forvitninni og gaf myndbrotið út á netið eftir að það fór að spyrjast út. J.J. Abrams, aðalframleiðandi Cloverfield, hefur auðvitað lengi tísað möguleikann á öðru eintaki en eitthvað hefur það hliðrast til eftir að hann fór að leika sér í geimnum.

En núna virðist bara fullbúin mynd vera á leiðinni nú í mars. Eins og strax má sjá er myndin ekki skotin í „found footage“ stíl og fara Mary Elizabeth Winstead, John Goodman og John Gallagher Jr. með helstu hlutverk. Leikstjórinn er Dan Trachtenberg (sem Slashfilm heimsækjendur ættu að kannast við), upprennandi leikstjóri sem gaf okkur m.a. þessa Portal stuttmynd.

Hér er sýnishornið:

Ýmsir spekúlentar á netinu segja þó að hér sé ekki framhald á ferð, heldur sjálfstæð mynd sem á sér „systkinatengingu“ við Cloverfield sem við öll þekkjum frá 2008. Lítið á þetta hálfpartinn sem sameiginlegan „bíóheim,“ eins og trendið er orðið í dag.

Við erum þó býsna spennt. Þessi kitla gerir akkúrat það sem hún á að gera: hún kitlar.
Hart.