Frá því á 16. öld hefur heimurinn fengið að upplifa orð og sögur Williams Shakespeare í bílförmum. Flestir læsir íslendingar þekkja frægustu verkin – meðvitað eða ómeðvitað – eins og Draumur á Jónsmessunótt, Hamlet, Óveðrið ásamt frægasta pari veraldar: Rómeó og Júlíu.

Þó þarf ekki að vera læs til að þekkja þessar sögur þar sem sögur Shakespeare hafa lengi verið vinsælt efni í kvikmyndum, bæði beint og óbeint. Þegar ég segi beint þá á ég við að myndin fjallar frá a til ö um það sem Shakespeare skrifaði, með sömu persónum og tíðarandinn sá sami. Myndin Romeo + Juliet með Leó fellur í þann flokk ásamt fullt af Kenneth Branagh myndum – en aðkoma Kenneths að ritverkum Shakespeare er nánast efni í undirgeira út af fyrir sig. Óbeint efni í bíómyndum má segja að sé þegar myndirnar draga upp aðalinnihaldið frá verkum Shakespeare og í raun oft vel falið fyrir suma en ekki alla. Hvaða myndir það eru koma sumum ef til vill á óvart.

 

The Lion King (1994)

Byrjum á léttustu myndinni en flestir hafa ábyggilega vitað að saga Simba væri innblásin af sögunni um Hamlet, prinsinn sem hefndi dauða föður síns. Munum að þetta er disney mynd og því var sagan ekki eins myrk og Shakespeare gerði en aðal þráðurinn er til staðar. Shakespeare er líka áþreifanlegur í framhaldinu um ljóna konunginn: Simba’s Pride þar sem ljónynjan Kiara og ljónið Kófú verða ástfangin þó fjölskyldur þeirra séu óvinir og ást þeirra því forboðin. Kunnuglegt?

 

10 Things I Hate About You (1999)

Þessi fræga, frábæra og fantagóða unglingamynd kemur upprunalega úr kollinum á Shakespeare nema hann nefndi söguna The Taming of the Shrew (Skassið tamið) og leikritið innihélt ekki söngatriði frá aðalgæjanum. Í myndinni er fjölmörgum vísbendingum hent í áhorfendur til að þeir nái því pottþétt hvaðan sagan kemur upprunalega. Frábær unglingamynd sem hefði getað gert leiðinlega enskutíma þeim mun betri ef þetta hefði verið heimavinnan.

 

West Side Story (1961)

I like to be in America….. syngjandi, dansandi Rómeó og Júlía! Ein af fjölmörgum myndum sem byggðar eru á misskilinni ástarsögu Rómeó og Júlíu. Auðvitað er þó miklu breytt en þemað er hið sama. Alls ekki eina myndin byggð á parinu fræga en meðal annarra eru Lion King 2: Simba’s Pride, Warm Bodies og auðvitað Romeo Must Die.

She’s the Man (2006)

Þessi skemmtilega og flippaða fótboltamynd með klassískri tvífaraskiptingu var ekki ný af nálinni þegar hún kom í bíó á sínum tíma. Þó handritshöfundarnir hafi ekki beint falið það hver innblásturinn var með því að breyta ekki einu sinni nöfnum persónanna. Ekki eru þó allir vel kunnugir sögunni Þrettándakvöld (Twelfth Night) og því ekki algeng vitneskja að bæði Amanda Bynes og Channing Tatum hefðu leikið í Shakespeare verki.

 

O (2001)

Önnur Shakspeare aðlögun með Juliu Stiles þar sem sagan um Óþelló er uppfærð í körfubolta og menntaskóladrama með álíka miklum harmleik og upprunalega saga Shakespeare. Persóna Stiles, Desi, er upprunalega Desdemona, ástin í lífi Óþelló sem nú er svartur körfuboltastrákur sem nefnist Óðinn og verður svikinn af illmenninu Hugo, Iago, sem er öfundsjúkur sterafíkill og leikinn af Josh Hartnett (hvað varð eiginlega af honum?). Heilmikið drama en afar skemmtileg uppfærsla á einni þekktustu sögu Shakespeare. Leikarinn Tim Blake Nelson leikstýrði myndinni.

 

Ran (1985)

Sagan um Lér konunng fékk japanska uppfærslu þar sem dætrum var breytt í syni og skipting ríkisins kemur öllu í bobba og vandræði. Myndin heldur blóðugum úrhellingum upprunalegu sögunnar ásamt svikum og prettum hinna ýmsu persóna. Valdafíknin og stolt konungsins er áþreifanlegt í gegnum myndina sem verður honum að falli líkt og hjá Lér.

 

Much Ado About Nothing (2012)

Hér er ekkert farið leynt með að um er að ræða kvikmynd byggða á Shakespeare þar sem titillinn segir allt. Hún fær þó að vera með þar sem myndin færir söguna í nútímann en heldur upprunalegu línunum. Ekki nóg með það heldur er hún tekin upp á heimili Josh Whedon á aðeins 12 dögum…. meðan maðurinn vann að fyrstu Avengers myndinni. Leikaraliðið er kunnuglegt enda höfðu þeir flestir unnið með Whedon áður og gera sumir enn í dag. Skemmtileg útfærsla á kaotískri sögu um ást og vandamál.