Bíómyndaformið er í eðli sínu göldrum líkast, en galdrageirinn sjálfur hefur tekið hin ýmsu form. Það er svo sem ekki sjaldgæft að slysast á mynd með galdratengda þætti og sjá strax að hún er rusl, en inn á milli leynast góð dæmi um hvernig best er hægt að fara að því að tvinna saman töfra og áhugaverðar persónur.

Skoðum.

Practical Magic (1998)

Hér höfum við galdramynd sem byggð er á bók eftir Alice Hoffman, en hún fjallar um systur sem reyna að aflétta fjölskyldubölvun. Aðalpersónurnar eru sterkar kvenfyrirmyndir þar sem meginþemað er samband systranna og hvernig þær geta í sameiningu sigrast á djöflum fortíðarinnar. Þó galdrarnir séu ekki aðalfókus myndarinnar þá krydda þeir verulega upp á sambönd persónanna og framvinduna. Að ímynda sér myndina án þeirra er eins og að elda lasagna án osts.

 

The Prestige (2006)

Ein af mínum allra uppáhalds. Hér eru engir alvöru galdrar, en við fáum að líta á bakvið margar af þekktustu brellum töframanna fortíðarinnar. Barátta tveggja galdramanna um að vera sá allra besti keyrir myndina, en það er erfitt að ákveða hvor eigi titilinn meira skilið. Nú, meira en áratugi eftir að myndin kom út, get ég enn ekki ákveðið mig og er viss um að fleiri séu í sömu sporum. Þetta er ekta Nolan mynd sem skilur mann eftir með pælingar og túlkanir sem kalla eftir öðru glápi.

 

Doctor Strange (2016)

Einn heitasti galdramaðurinn sem er bæði læknir og starfar með ofurhetjum fær auðvitað sitt pláss á þessum lista. Ólíkt öðrum galdramyndum sem hér er fjallað um, þá er Doctor Strange hress hasarmynd með bardögum og ótrúlegum sjónrænum brellum sem gefa áhorfandanum töfrandi sögu. Ævintýrin gerast varla skoplegri þökk sé Cumberbatch, sem er skemmtilega kaldhæðinn í gegnum alla myndina.

 

The Craft (1996)

Þú vilt ekki bögga táningsstúlkur því það gæti endað í andlegu blóðbaði, og þegar þær stunda galdra gæti það svo orðið bókstaflegt blóðbað! Hér höfum við öðruvísi táningamynd þar sem fjórar stúlkur læra að stunda galdra, samnemendum sínum til mikilla ama. Myndin hlaut MTV verðlaun fyrir besta bardagaatriðið árið 1997 og átti það vel skilið (reyndar var engin samkeppni það árið) þar sem atriðið er ógleymanlegt.

 

Hocus Pocus (1993)

Ljótar nornir sem vilja vera ungar og fallegar sem svífast einskis til að ná markmiðum sínum hljómar eins týpísk sápuóperusaga fallega og fræga fólksins, beint úr þáttum Kardashian systra. Hér er þó aðeins skemmtilegri frásögn systra og þeim mun “raunverulegri” með þremur vel þekktum leikkonum sem gefa hláturtaugum margra verðuga æfingu. Hvort sem það er vegna fáránleikans eða húmorsins, þá er þetta góð afþreying.

 

The Illusionist (2006)

Því miður fyrir The Illusionist þá kom hún út á sama ári og The Prestige sem varð til þess að hún laut í lægra haldi fyrir meistara Nolan þegar kom að aðkomu og umtali. Hún fjallar samt á svo fallegan en sorglegan hátt um ástir tveggja einstaklinga sem eru forboðnar vegna fáránlegrar stéttaskiptingar. Töfrar eða ekki skipta engu máli, því hér er um góða mynd að ræða með úrvalsleikurum.

 

Harry Potter serían (2001-2011)

Ókei, hér verður auðvitað að svindla og taka á móti þessum sem einum risastórum heildarpakka (annars væru þá myndirnar á listanum 15 og Potterinn tæki meirihlutann). Það er bara ekki hægt að skrifa um galdra án þess að minnast á göldrótta munaðarleysingjann sem fékk börn í milljónatali til að lesa og flýja raunveruleikann. Frá einni hugmyndaríkri konu fengum við 7 bækur, 8 kvikmyndir (misfrábærar, en flestar góðar), tilvonandi 5 mynda-spinoff seríu auk nokkurra aukaefnisbóka (sem munu ef til vill allar vakna til lífsins á hvíta tjaldinu). Þessi göldrótta veröld sem á að vera til samhliða okkar eigin gefur von um að til séu töfrar. Við erum ekki Muggar, bréfið bara týndist.

 

Bónusmynd: The Witches (1990)

Kannski ekkert spes mynd í augum margra en hún fær að fylgja hér af tveimur góðum ástæðum: Í fyrsta lagi því í henni birtast hryllilegar og göldróttar nornir. Í öðru lagi því hún hræddi úr mér líftóruna í æsku! Sagan var efnislítil og persónurnar auðgleymanlegar en helvítis umbreytingarnar sýna að það þarf ekki tækni til að gera ógeð, bara vel gert meik og slím.

 

Myndir sem náðu næstum því á listann:

Nanny McPhee

Presto

The Sorcerer’s Aprentice (fyrir ykkur Nic Cage aðdáendurna)