Hver saga getur hugsanlega verið sögð á óendanlega vegu þar sem nánast hver einstaka ákvörðun varðandi framsetningu sögunnar breytir upplifun og skilning neytandans af henni. Hvernig við segjum þessar sögur hefur auðvitað breyst og útfært sig gífurlega í gegnum aldirnar, þar sem hvert listformið tæklar frásagnir á sinn eigin máta. Það kemur vonandi ekki neinum á óvart að þessi greinabálkur mun einblína á sérsvið heimasíðunnar okkar og kraftinn sem sú list hefur inn að beini náð að einnota sér: Sjálft kvikmyndaformið og frásagnarstíl þess.

Það sem kvikmyndir hafa fram yfir bækur, tónlist og málverk er samtvinning hins sjónræna og hljóðræna á hátt sem getur framsett sögur á fleiri máta en nánast öll hin listformin. Það segir sig því sjálft að undir regnhlíf kvikmynda þurfa þessar skynjanir að vinna saman til að skapa bestu upplifunina, en reglan sem allt kvikmyndagerðarfólk lærir er að hvor um sig þarf hver skynjunin að virka sjálfstæð og vera vandlega unnin til að kvikmyndaverkið eigi möguleika á að ná þeim hæðum sem formið getur náð. Þetta er alveg rosaleg langloka til að segja einfaldlega að ef þú horfir á kvikmynd án hljóðs með mynd eða án myndar og með hljóði áttu að geta lesið og fylgt framvindunni á líkum skala og ef myndin væri með bæði. Það sem þessi regla gerir er auðvitað að hnitmiða áherslur kvikmyndatökunnar, klippingarinnar og hljóðvinnslunnar svo um heilstætt verk sé að ræða sem grefur eftir öllum gullmolum sem undirstaða myndarinnar, handritið, hefur upp á að bjóða.

Það eru til óteljandi kennslusögur af því hvernig skal beita þessum þremur sviðum kvikmyndagerðarinnar, þannig ég ætla að minnka áhugasviðið og fókusera hér einfaldlega á sjónrænu hliðina, myndatöku og klippingu, og líta á ákveðna beitingu þeirra sem mér finnst ekki nógu mikið talað um. Ef þessi gríðarlegi textaveggur sem ég kalla inngang er ekki búinn að fæla þig frá, komum við loksins að málefninu sjálfu: Skotið sem festir kvikmyndina sína í þétta hnotskurn. The cherry on top.

Skilgreiningin kannski segir sig sjálf, en ég ætla engu að síður að flækja hlutina meira með því að skipta þessu Kirsuberjaskoti niður í fjórar tegundir og nota fjórar kvikmyndir sem dæmi til að útskýra hverja týpu. Ég mun styðjast aðallega við myndir sem hafa fengið ágæta útbreiðslu í gegnum árin og ættu því líkurnar á að flestir lesendur hafi séð þær að vera ágætar. Varist samt, dæmin hér fyrir neðan verða spillt í ræmur þannig ef þér er annt um að sjá eina af þessum myndum sem birtast í greininni, afgreiddu það fyrst.

 

Aðalpersónan skilgreind – Dæmi: The Social Network

social

Það er kannski best að byrja á því að nefna að, eins og þið sjáið, er þetta skot frekar látlaust og hefðbundið. Þau eru það flest sem verða notuð hérna, en það er einmitt ástæða til að beina sviðsljósinu á þau og benda á allt það sem gerir þau merkileg; hvar þau eru staðsett í sögunni, hvert leiða þau, hvað kom á undan og kannski það mikilvægasta, hvað kom ekki á undan.

Þessi fyrsta týpa af Kirsuberjaskotinu tæklar aðalpersónu(r) myndarinnar og finnur einfaldan sannleika í aðgerðum þeirra sem gefur okkur heildarmynd af hver manneskjan er inn að beini. Hvað skiptir mestu máli. Týpan er notuð á mismunandi hátt og oftast ræður staðsetning þess innan sögunnar tilganginum; sem dæmi má líta á skotið úr There Will Be Blood hér efst á greininni, sem sýnir aðalkarakterinn Daniel Plainview liggjandi á hörðu viðargólfi hjá gullsmiði. Í samhengi sögunnar er hann nýbúinn að rekast á gull í námu sem hann gróf sjálfur og eyðir fyrstu mínútum myndarinnar í þögn þar sem hann leggur allt sitt fram við að ná því. Við útflutning á gullinu slasast Plainview og fótbrýtur hann sig illa og neyðist því, aleinn í auðninni, að skríða alla leið á bakinu til siðmenningar í leit að hjálp. Næst sjáum við gullsmiðinn mylja afraksturinn fyrir Daniel, en þegar að kameran hallar sér niður á gólf sjáum við hann liggjandi aðeins metra frá, grandskoðandi verknaðinn með spelku á fætinum og riffilinn sér við hlið. Jafnvel eftir Guð-má-vita hve marga klukkutíma, ef ekki daga af striti, víkur hann ekki frá gullinu sínu; víkur ekki frá því sem hann hefur stritað fyrir. Þetta er Daniel Plainview: Tortrygginn, vægðarlaus, metnaðarfullur og eigingjarn.

Að sama skapi hefst The Social Network á snilldar senu sem kynnir fyrir okkur aðalpersónuna Mark Zuckerberg, en þar vinna díalógurinn og Jesse Eisenberg mestu vinnuna, sem leiðir okkur að enda myndarinnar; þar sem eitt skot kemst að hjarta karaktersins. Eftir allt sem gengið hefur á í sögunni, allur vinamissirinn, allar málsóknirnar og allt frumkvöðlastarfið, situr Zuckerberg eftir einn í fundarherbergi lögfræðinganna sinna með aðstoðarlögfræðingi. Þau eiga stutt spjall þar sem hún ráðleggur honum að borga og fer síðan; skiljandi hann einan eftir. Einn með tölvu. Það styttist í samningaviðræður og eftir þetta kvöld þarf hann mjög líklega að punga út fjölmörgum milljónum í skaðabætur.

Í ljósi alls sem á hefur gengið og alls sem hann hefur misst, ákveður hann að opna tölvuna, fara á Facebook (í fyrsta skiptið sem við sjáum hann nota síðuna) og finna fyrrverandi kærustuna sína sem hann hóf myndina með. Hann addar henni… og refreshar… og refreshar… og refreshar í von um að hún svari vinabeiðninni.

Þessi stálharða reiknivél, sem er búin að skauta framhjá samkeppnisaðilum og efasemdamönnum og verða heimsins yngsti billjónamæringur, finnur fyrir eftirsjá. Ekki aðeins eftirsjá, heldur vonarneista um betri framtíð þar sem hann getur bætt fyrir misrétti fortíðar; og undir þessu augnabliki afhjúpar myndin með texta að allir aðilar sem lögsóttu fengu á endanum borgað.

Ráðlegging aðstoðarlögfræðingsins byggist á því að þegar á heildina er litið eru þessar skaðabætur aðeins stöðumælasekt fyrir Zuckerberg og saki því ekkert að borga bara, og hefði myndin haldið á skotinu sem kemur á undan kirsuberinu hefði sá endapunktur fylgt okkur út. En með því að klippa yfir á skjáinn og gjörðir Zuckerberg innan rammans, gefur þetta loka augnablik í skyn ákveðið varnarleysi sem hann leyfir sér að upplifa; ákveðin uppgjöf þar sem hann vonast til að einn daginn hefja uppbyggingu á niðurrifnum vinskap við fólkið sem hann særði og vonandi besta vin sinn og helsta málsóknaraðila – eða í minnsta lagi skilja við hann með einhverju sem líkist sátt.

Þetta er Mark Zuckerberg myndarinnar: Metnaðarfullur, hæfileikaríkur, afbrýðissamur, hégómafullur og einstaklega einmanna.

Sjá einnig: Skyfall, Whiplash, Fitzcarraldo, Raging Bull

 

Samband persóna – Dæmi: Sid & Nancy

sid

Næsta týpan skilgreinir samband milli tveggja (eða fleiri) persóna innan sögunnar og þjónar þessi rammi úr Sid & Nancy fullkomlega þeim tilgangi. Bara frá ókunnugu sjónarhorni, þeir sem eru að sjá skotið kalt án vitneskju um myndina, slær eðli sambands persónanna við manni með einkennandi myndefni: Ástarpungar í sleik á meðan að rusl og úrgangu rignir yfir þau. Þetta segir þér allt sem þú þarft að vita um þau áður en þú sérð einu sinni myndina; þetta var m.a.s. notað fyrir plakatið. Umhverfi sleiksins kallar á að sambandið þeirra er eitrað en ástríðufullt og veðrar hvaða storm sem er, en á sama tíma ertu meðvitaður um að þetta sé ekki besti staðurinn til að sýna ástúð og því neyðist maður til að velta því fyrir sér hvers konar fólk standi þarna fyrir framan okkur. Þeim er augljóslega sama um umhverfið, og þannig er framsett fyrir okkur eirðarlaust, bágt statt og ástríðufullt fólk.

Í samhengi sögunnar verða hlutirnir áhugaverðari, en staðsetning skotsins er inn fyrir miðja mynd, þegar að turtildúfurnar tvær, Sid Vicious og Nancy Spungen, eru orðnar vel háðar heróíni og fara varla úr litlu íbúðinni sinni. Eftir að tímaskynið er löngu flogið út um gluggann og þau eru í góðri vímu, rennur upp fyrir þeim að þau hafa ekki stundað kynlíf í ókunnugan tíma og hvað það hefur haft lítil áhrif á sambandið.

Með miklu áhugaleysi velta þau því fyrir sér upphátt hvort þau ættu að ríða snöggvast, en sætta sig við að halda áfram í vímunni og láta einn koss duga. Klippt er á skotið hér fyrir ofan og þau fá sinn langa koss með ruslregni og alles. Síðan er harðklippt beint yfir á þau með sitthvora nálina í handleggnum við eldhúsborðið. Með auknu samhengi kemur í ljós sterk melankólía sem rennur undir lífum karakterana, þar sem þetta fallega og nána augnablik er samlokað á milli heróínvímna. Við fyrsta klipp skellur á manni fortíðarþrá þeirra yfir betri og ástríkari tímum, en með seinna klippinu yfir í eldhúsið blasir við sorgleg viðurkenning á núverandi stöðu þeirra og öll löngun í fyrri tíma hverfur með nálinni.

Sjá einnig: Fight Club, Persona, Ex Machina, Inglourious Basterds

 

Heimur myndarinnar – Dæmi: Inside Llewyn Davis

llym

Nú komum við að þriðju týpunni, sem lýsir heimi og andrúmslofti tilteknu myndarinnar. Flóknara gerist það ekki. Eitt af upphafsskotun Inside LLewyn Davis mun vísa okkur leiðina að þessu sinni, en byrjunarsena myndarinnar sér hinn titlaða Llewyn spilandi rólega ameríska þjóðlagatónlist á dimmum bar. Lagið er spilað í heild sinni og milli þess sem Llewyn singur fáum við að sjá áhorfendur fylgjast með. Sumir hagræða höfðinu smávægilega, aðrir kinka kolli, flestir stara svipbrigðislausir á. Svo komum við að þessum ramma, sem innsiglar ekki aðeins andrúmsloft og viðbrögð senunnar, heldur þegar litið er á heildarmyndina, söguna alla.

Saga myndarinnar gengur út á lítið annað en tilraunir Llewyn til að öðlast frægð og frama en án árangurs. Hann kemur sér í aðstæður tortygginn en vongóður, en fer alltaf verr úr þeim. Myndin er því eitt, langt, frekar mikið bömmer ferðalag með niðurlútum þjóðlagasöngvara sem kemst ekkert áfram í lífinu. Melankólíska gulgræna litaskemað sem baðar myndina gefur það vel til kynna, en með þessum eina ramma er ekki aðeins tilfinning sögunnar fönguð, heldur einnig örlög og viðhorf aðalkaraktersins.

Í stuttu máli fjallar Inside Llewyn Davis um listamann sem vill verða frægur, en mun aldrei verða það. Óraunhæft markmið sem verður aldrei að veruleika. Óáþreifanleg frægð.

Hin mismunandi skot af áhorfendum úr byrjunarsenunni voru búin að koma manni á sporið, en þessi tiltekni rammi setur púslið saman. Frá utanaðkomandi aðila sem sér rammann kaldur, þá kallar á hann dökku, kjurru hnakkar áhorfenda. Hreyfingar- og áhugaleysið. Sígaretturnar sem dangla af fingrum þeirra. Reykurinn sem þeir eru ekki hræddir við að blása að söngvaranum.

Í sjálfri myndinni gengur jafnvel einhver framhjá kamerunni í skotinu, óhræddur um að blokkera atburðinn. Allt baðað í þessum súrsæta gulgræna lit sorgarinnar. En vandinn ætti ekki að liggja hjá Llewyn, hann situr þarna, lýstur af einsömlum kastara sem undirstrikar einangrunina, og rífur út hjarta sitt í söngformi. Deilir með öllum þeim sem hlusta sorglega og fallega söngva um missir og mannlegan sannleika, en enginn hefur áhuga. Eins og stórframleiðandinn Bud Grossman summar upp svo fullkomlega síðar í myndinni, og virðist tala fyrir hönd allra óáhugasömu, síreykjandi áhorfendanna á barnum: I don’t see a lot of money in this. Draumur sem mun aldrei rætast.

Sjá einnig: Fargo, Blade Runner, Punch-Drunk Love, Her

 

Heildarpunktur myndarinnar – Dæmi: Nightcrawler

car

Við endum á þeirri týpu Kirsuberjaskotsins sem er bæði erfiðast að framsetja og er líklega undir einstaklega persónubundinni kríteríu. Týpan lýsir sér þannig að skotið nær að fanga sjálfan heildarpunkt myndarinnar, ef slíkur gæti verið til staðar, og endurspeglar það sem hún hefur að segja fullkomlega; hvort sem hún er að gera athugasemd við sig sjálfa eða raunveruleikann. Sumir sjá aðeins það sem þeir vilja og ég geri mér fulla grein fyrir því að jafnvel í samanburði við skotin sem ég hef lýst hér á undan mun þetta hérna hljóma eins og rosalegt matsmál. Persónulega veit ég aðeins um eitt dæmi um notkun þess – þessi tiltekni rammi úr Nightcrawler – á meðan aðrir gætu séð fyrir sér allt önnur skot sem uppfylla sömu skyldum og jafnvel enn aðrir sjá bara látlausan og óspennandi ramma og skilja ekkert rausið í mér. Það er allt í góðu.

Með því öllu ruddu úr vegi get ég hafið krufninguna, en sögulega samhengi rammans er að í gegnum myndina hefur aðalpersónan, Lou Bloom, læðst um myrkar götur Los Angeles með ódýrar vídeómyndavélar og filmað glæpi og slys fyrir fréttatíma. Við sjáum alltaf atburðina frá hans sjónarhorni og síðan um nóttina í fréttum, þar sem pixlaða og ódýra myndefnið af kamerunni er sýnt. Sjónvarpsstöðin einblínir á smávægilega, mannlega harmleiki; ofbeldisfull innbrot, banaslys og glæpi.

Í gegnum myndina kemur Lou sér dýpra inn í nútíma fréttaheiminn og fáum við m.a. að sjá framleiðanda fréttatímans biðja klippara stöðvarinnar um að fara frá einu skoti yfir í annað, taka út og bæta við hljóðum, og ýmsar kúnstir allt í tilraun til að skapa sem mest grípandi fréttaþátt fyrir almenna áhorfandann. Lou gengur vel í sínu starfi og uppfærir tökubúnaðinn smám saman með dýrari kamerum og jafnvel öðrum tökumanni. Það er síðan í klímax myndarinnar þar sem Lou fangar sitt flottasta myndefni til þessa, æsispennandi bílaeltingaleikur, bílslys og loks morðið á félaga hans. Við sjáum hann taka þetta allt upp og síðan færa framleiðanda myndarinnar til áhorfs – en þá kemur kirsuberið.

Út myndina hefur alltaf verið gjá á milli þess sem Lou tekur upp með kameru og þess sem við sjáum gerast. Þetta er alltaf hrátt og ógeðfellt myndefni sem birtist í fréttatímanum og raunveruleiki þess öskrar á mann. Hins vegar, í kirsuberinu, er myndefnið ekki aðeins hreinsað upp og í háskerpu eins og má sjá, heldur er þetta hreinlega sena úr sjálfri myndinni – sama sena og við sáum nokkrum mínútum fyrr. Fjölmargar myndir hafa áður svindlað og sett inn sínar eigin senur sem karakterar horfa á í staðin fyrir að filma frá nýju sjónarhorni, en Nightcrawler hafði trekk í trekk haft fyrir því að skjóta myndefni sem Lou á að hafa gert. Við getum því annaðhvort litið á þetta sem svindl eða eitthvað meira.

Þar kemur innrömmun skotsins í spilin, en bæði Lou og framleiðandinn eru sett við sitthvorn enda rammans – og við höldum á skotinu í ágætan tíma. Í nokkrar sekúndur erum við að fylgjast með þeim horfa á myndina. Við horfum á myndina horfa á myndina. Á meðan að Spaceballs gátu notað þetta í brandara, þá bíður þessi rammi upp á eitthvað umtalsverðara í samhengi sögunnar, sem fjallar ítrekað um skemmtunarvæðingu fréttanna. Fréttir sem eru klipptar og mótaðar til að ná til sem flestra. Raunveruleikinn er smám saman að hverfa og Nightcrawler sannar sinn endanlega punkt í þessu eina skoti: Það er orðinn enginn munur á myndefni Lou og kvikmyndarinnar Nightcrawler. Fréttirnar eru komnar á heimavöll Hollywood mynda. Við meltum raunveruleikann eins og skemmtun.

Þetta er kraftur Kirsuberjaskotsins.

________________________________________________________________________

Þá fer greinin alveg að klárast, en að lokum vildi ég bara segja að vonandi var lesturinn ágætur; en punktur greinarinnar var minna að kryfja einstök skot, heldur meira að benda á bæði metnað og áhrif myndrænnar frásagnar þegar henni er beytt. Vonandi hefur þetta fengið einhverja þarna úti til að hugsa aðeins öðruvísi um kvikmyndatöku – eða að minnsta kosti kunnað að meta dugnaðinn sem liggur að baki hennar.