“What a glorious feeling!”

Ég hef lengi ætlað að sjá Singin’ in the Rain. Þessi mynd er viðurkennd sem ein besta kvikmynd allra tíma, með 8,3 í einkunn á imdb og situr þar í 92. sæti á lista yfir bestu myndir sögunnar. Myndin fékk þó aðeins tvær tilnefningar til Óskarsverðlauna, sem er skandall, sérstaklega í ljós þess að Chicago fékk 6 slík verðlaun árið 2002, þar með talið fyrir bestu mynd.

Þessi mynd er glæsileg í alla staði. Hún er litrík og gullfalleg á að líta. Hún er fyndin, sniðug og skemmtileg með ótal frumlegra dans og söngatriða. Þarna er mjög smitandi gleði á ferð sem hrífur áhorfandann og fær hann til að hugsa hvaða fleiri söngvamyndir frá þessum tíma er vert að kíkja á.

Gene Kelly er frábær í aðalhlutverkinu en hann er einhverskonar blanda af Fred Astaire og Charlie Chaplin, með óaðfinnanlegar hreyfingar og frábæra rödd. Sagan er ekki ósvipuð og í The Artist frá 2011. Þöglar myndir eru að renna sitt skeið og kvikmyndaverin þurfa að bregðast við með talmyndum, sem gengur ekki áfallalaust. Þessi mynd er betri en ég þorði að vona, látið það eftir ykkur að kíkja á hana. Þvílík tilfinning!

“Short people have long faces, and long people have short faces. Big people have little humor, and little people have no humor at all.”

Leikstjórar: Stanley Donen (Charade), Gene Kelly (Hello Dolly!)