Í sumar verða teknar til sýninga þrjár eftirtektar myndir í Bíó Paradís, myndir sem falla undir „betra seint en aldrei“ regluna og ber þeim að fagna á meðan geimhasar, strandverðir og sprengingar munu yfirgnæfa stærri skjá landsins.

Um er að ræða eina ómótstæðilega mynd frá leikstjóra Once og Begin Again, nýjustu kvikmynd Richards Linklater og það (næst)nýjasta frá Terrence Malick.
Tvær af þessum myndum lentu á mörgum gagnrýndalistum yfir bestu kvikmyndir síðasta árs.

 

EVERYBODY WANTS SOME – frumsýnd 12. maí

Árið er 1980. Hópur hafnarboltaleikmanna upplifir frelsið og áhyggjulausa veröld í undanfara fullorðinsáranna.

Everybody Wants Some er hugguleg og skemmtileg saga sem hlaut ágætislof frá gagnrýnendum. Á marga vegu er þetta „systkinamynd“ Dazed and Confused, sem Linklater gaf út árið 93.

 

KNIGHT OF CUPS – frumsýnd 26. maí

Knight of Cups, í leikstjórn Terrence Malick (The Tree of Life og To the Wonder)  var frumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín 2015.  Myndin fjallar um mann sem er fangi frægðarinnar í Hollywood þar sem hann býr í gerviheimi og leitar að hinum raunverulega tilgangi lífsins. Með helstu hlutverk í myndinna fara Christian Bale, Cate Blanchett og Natalie Portman.

 

SING STREET – sýnd 9. júní

John Carney (Once) hefur heillað ófáa áhorfendur með Sing Street. Ungur drengur sem elst upp í Dublin á níunda áratugnum fer að heiman og stofnar hljómsveit til þess að ganga í augun á dularfullri stúlku sem hann er bálskotin í. Myndin var frumsýnd á Sundance Film Festival 2016 við góðar undirtektir.