Af einhverri ástæðu fær þessi mynd ekki það lof sem mér finnst hún eiga skilið. Hún er fyndin, upplífgandi og með haug af jákvæðum boðskap fyrir unga sem aldna. Ekki má gleyma því að myndin er troðfull af röddum frábærra leikara sem gefa dýrunum mannlega eiginleika með skemmtilegum og oft tilfinningaríkum talanda. Tvö bestu dæmin eru Matthew McConaughey sem kóalabjörninn Buster Moon og Taron Egerton sem górillan Johnny. Þetta eru tvær ólíkar persónur sem draga úr okkur samúð á ólíka vegu en á alveg jafn áhrifaríkan hátt. Svo má ekki gleyma leiðinlega kvikindinu sem þú ýmist hlærð með eða pirrar þig að innstu taug. Þið vitið hvern ég á við… ef ekki þá er tími til að horfa á myndina. Myndin slær á marga ólíka strengi með fjöldann allan af skemmtilegum persónum og mörgum minni sögum sem fléttast á einfaldan hátt í eina efnismikla sögu þar sem söngur og gleði leiða hana áfram.

Að mínu mati hefur þessi mynd gleymst og of fáir gefið tækifæri þar sem hún er stimpluð sem teiknimynd og því aðeins ætluð börnum. Hún hefur samt marga skemmtilega brandara ætlaða fullorðnum og skírskotanir í annað efni sem fer alveg framhjá börnunum. Þegar horft er til tölvuvinnslunnar og teikninganna er hún flott, sem ber lítið af þegar horft er til þess aragrúa af teiknimyndum sem til eru í dag. Þetta er einfaldlega eitthvað sem við búumst við að sé flott og hér bregður lestin ekki af sporinu.