Forty Lashes Less OneMargir Quentin Tarantino aðdáendur bíða óþreyjufullir eftir næsta meistaraverki hans, The Hateful Eight, sem er búinn að fá frábærar viðtökur. En leikstjórinn ákvað að gleðja aðdáendur sína ennþá meira og hálfpartinn kynna næsta verkefni sitt, Forty Lashes Less One, sem er byggð á (annarri) bók eftir Elmore Leonard.

Quentin Tarantino er ekki enn búinn að formlega staðfesta þetta, hvort hann t.d. ætli að gera sjónvarpsséríu eða jafnvel heila kvikmynd eftir bókinni. Hér er auðvitað maður sem er mikið þekktur fyrir að ‘tísa’ að manni verkefni sem aldrei verða að veruleika (Vega Brothers t.d., Kill Bill 3… eða hvað?). Hins vegar hefur hann víst heilmikinn áhuga á því að gefa aðlögunni þægilegan langa tíma til að segja söguna. Hann er sérstaklega heitur fyrir hugmyndinni að gera mini-sjónvarpsséríu sem mun ná 4-6 klukkutíma spilunartíma, sem þýðir að hver þáttur er um klukkutíma langur.

Efniviðurinn er algjörlega eitthvað sem hægt er að ímynda sér Tarantino gera að sínu og brillera með. Bókin gerist í Yuma-fangelsi árið 1972 og segir frá tveimur mönnum sem standa frammi fyrir lífstíðardóm. Annar þeirra er blökkumaður og hinn Apache-indjáni að hluta til. Í fyrstu eru þeir óvinir en það breytist fljótt þegar þeim er boðið náðun gegn því að elta upp fimm alræmdustu útlagana í Arizona-fylki.

Við munum gefa ykkur fleiri upplýsingar um þetta verkefni Tarantinos um leið og þær koma. Þangað til getið þið horft aftur á myndina hans Tarantino sem hann hefur gert eftir bók Elmore Leonard, Jackie Brown. Sú mynd er alltaf skemmtileg, og virðist alltaf smám saman verða betur og betur metin.