Geta óhefðbundnar jólamyndir komið manni í rétta skapið?

Já!

Oftast þegar hugsað er um bíómyndir sem annaðhvort fjalla um jólin eða gerast á meðan hátíðinni stendur, kemur óneitanlega upp í hugann fjölskylduvænn og jákvæður andi með hlýjum boðskap. En hvað með þær jólamyndirnar sem fara í hina áttina? þessar sem eru dökkar, prakkaralegar eða snúast einfaldlega bara um hræðilega atburði sem gerast kringum jólin, tengdum þeim eða ekki.

Skoðum.

 

FINNSKUR JÓLAANDI
rare-exports1

Má alveg segja að ein sú grillaðasta jólamynd undanfarinna ára hafi komið frá frændum okkar í Finnlandi. Kvikmyndin Rare Exports tekur afar djarfa hugmynd og gengur alla leið með hana. Hér er jólasveinninn alls ekki allur sem hann er séður. Börnum er að auki rænt, hreindýrum slátrað, álfarnir eru ekki bara naktir brjálæðingar, heldur ódrepandi og illir. Svo er Sveinki sjálfur ekki beint eins og börnin þekkja hann. Augljóslega er ekki ætlast til að fjölskyldan komi saman í köldu veðri til að kíkja á þessa en vinkillinn er nýstárlegur og fjörugur.

 

NEI, NEI, EKKI UM JÓLIN

The_Ref

Það eru ábyggilega einhverjir sem hafa aldrei heyrt um svörtu gamanmyndina Hostile Hostages (sem er í rauninni evrópski titillinn; myndin heitir The Ref í heimalandi sínu). Hún fjallar um glæpamann, leikinn af Denis Leary, sem brýst inn á heimili hjóna og tekur þau í gíslingu. Gallinn er þó sá að þessi hjón gera ekkert annað en að hnakkrífast og öskra á hvort á annað klukkustundum saman. Með tímanum byrjar glæpamaðurinn að sjá eftir ákvörðuninni að halda þeim föstum. Óvenjuleg og fyndin atburðarás einkennir þessa gamanmynd, og hver einstaklingur metur það fyrir sig um hversu mikill og viðtengjanlegur jólaandi fylgir átakanlegu rifrildi hjónanna.

 

SVART LEÐUR OG DÝRABLÆTI

batman-returns-catwoman-1024x576

Batman Returns er ekki bara einhver svartasta jólamynd sem er tæknilega séð ætluð unglingum, heldur ein myrkasta ofurhetjumynd síðustu áratuga. Myndin er hlaðin atriðum sem maður sér venjulega aldrei nokkurn tímann í sögu um skykkjuklædda hetju. Listinn er jafnlangur og hann er sérkennilegur, en hér fáum við til dæmis senu þar sem fólk kastar barnavöggu ofan í holræsi, það má sjá morðtilraunir af öllum gerðum (þar á meðal eina þar sem konu er hent út um glugga af efstu hæð), nauðgunartilraun, barnarán, ungbarnarán, tilvísanir í ungbarnadrukknun og síðast en ekki síst illmenni sem frussar blóði og slefar yfir leðursamfestingi Kattarkonunnar. Allt er þetta vafið í einn eldrauðan jólapakka með snjóhvítri slaufu. Njótið heil!

 

DJAMMJÓL
fhd999GOO_Sarah_Polley_003
Árið 1999 kom út unglingamyndin Go, sem að mati margra spilaðist út eins og djamm- og hátíðarútgáfan af snilldinni Pulp Fiction. Myndin gengur út á þrjár stakar sögur og sýnir hvernig örlög hinna skrautlegustu persóna tvinnast saman. Skemmtanalífið er helsta tungumál sagnanna og persónanna ásamt eiturlyfjum, kynlífi, kjöltudönsum og jólasveinahúfum. Traust mynd í hátíðarskapi þótt engum yrði refsað fyrir að hafa gleymt henni.

 

LJÓSHÆRÐ Í LÍFSHÆTTU

p2bdcap3_original

Kvikmyndin P2 er hryllingstryllir sem afskaplega fáir sáu, enda ekki mynd sem heillaði marga. Aftur á móti er hún eftirtektarverð að því leyti að hún gerist á besta tíma árs og – alveg eins og Die Hard – setur aðalpersónu sögunnar í stórhættulegar og lífsbreytandi aðstæður. Ofbeldið er í grófari kantinum og illmennið langt frá því að vera aðlaðandi fígúra, en jólaandinn er sama og áþreifanlegur. Myndin byrjar meira að segja prakkaralega á laginu Santa Baby.

 

Á TÆPASTA VAÐI

die-hard-main

Dö. Hasarklassíkin Die Hard er nefnd á hverju einasta ári. Af hverju? jú, hún rýkur beint í spilun hjá mörgum karlmönnum yfir hátíðirnar á meðan þeir sitja í hlýrabol, náttbuxum og að sjálfsögðu á táslunum til að ná rétta John McClane-fílingnum. Það er hins vegar ofsalega lítið jólalegt við Die Hard, burtséð frá því að hún gerist öll á aðfangadagskvöldi (þá í snjólausri Los Angeles-borg) og endar á laginu „Let it Snow“. Þarna inn á milli kemur ein svalasta og skemmtilegasta atburðarás fyrr og síðar hvað hasargeirann varðar og byssuhávaðinn er vissulega músík í sjálfu sér. Skiptir engu hvaða árstími það er, það er alltaf hægt að finna góðan dag fyrir Die Hard – en munið að láta alltaf A Good Day to Die Hard í friði.

 

FULLUR GILJAGAUR
Bad-Santa-1024x576

Ung börn ættu aldrei, undir neinum kringumstæðum, að slysast til að horfa á sótsvörtu gamanmyndina Bad Santa með Billy Bob Thornton (nema þau séu með mjög svartan húmor). Þar leikur hann drykkfelldan, orðljótan (mjög svo) og kynlífssjúkan glæpamann sem fær sér vinnu sem jólasveinn í búðarklasa. Myndin er grimm og hikar ekki við það að vera ósmekkleg á réttum stöðum. Hún er nokkurn veginn eins og The Grinch fyrir fullorðna, svartsýna fólkið. Og góð.

 

ÁSKRIFT AÐ MARTRÖÐUM

kj

Hverjum dytti í hug að hægt væri að gera hrollvekju og jólafjölskyldumynd á sama tíma? Það er nokkuð sérstakt hvernig mynd eins og Gremlins getur verið myrk og óhugnanleg fyrir yngstu áhorfendur en samt boðið upp á einn krúttlegasta bíómyndakarakter allra tíma, sem er hann Gizmo litli (sama lýsing á annars vegar ekki við um bræður hans). Myndin er samt þekkt fyrir það að hræða líftóruna úr ungum börnum, enda skepnurnar í henni allt annað en mjúkar og jólalegar. En stórfræga einræðan hjá Phoebe Cates um eftirminnilegustu jólaminninguna… hún tekur kökuna. Brútal.

 

TVEIR Á TOPPNUM:
tumblr_ng7vpdZsfX1riy8svo5_1280

Hvað gera strákarnir í kringum jólin þegar þeir eru ekki komnir í nógu mikið stuð fyrir Die Hard? Nú auðvitað grípa þeir Lethal Weapon þar sem í boði eru tvær ólíkar hasarhetjur í stað einnar. Mel Gibson brillerar sem snargeðveika löggan Riggs og Danny Glover er frábær hliðstæða við hans karakter, og ekki nokkur áhorfandi er of gamall fyrir þennan skít. Þessi sígilda spennumynd býður upp á slagsmál, húmor, sjálfssagða ’80s nekt og jafnvel ,,Jingle Bell Rock“ sem upphafslagið. Erfitt er annars vegar að koma sér í hátíðargírinn fyrst að vændiskona stekkur af efstu hæð byggingar í sömu senu. Annars mikið fjör!

 

KRÚS OG KYNSVALL

hidden9

Tom Cruise í þungum hugleiðingum í svanasöng Kubricks, hinni stórkostlegu en sjálfsagt umdeildu Eyes Wide Shut. Það er ekki oft þar sem þú sérð svona mikið glitta í jólatré og glingur í djúpu erótísku spennudrama á sniglahraða. Þessi ætti að fara árlega í tækið. Þú færð að minnsta kosti furðulegt, dáleiðandi og bitastætt kynsvall fylgir með dílnum (þetta er nú hátíðin til að deila) og lokaorð sem fullkomlega innsigla hjá mörgum allt sem jólin snúast um. Jú jú, segjum það.

 

Fleiri:

Santa Claus vs. The Martians, Brazil, Kiss Kiss Bang Bang, The Long Kiss Goodnight, Silent Night, Deadly Night, The Long Kiss Goodnight, Black Christmas, Iron Man 3 (?), The Ice Harvest, Krampus (þó hún sé líka býsna jóló…)

 

Veistu um fleiri? Segðu frá…