Leikstjórann Gareth Evans má helst ekki rugla saman við Gareth Edwards. En engar áhyggjur. Það er algengt. Þessi síðarnefndi er maðurinn sem gaf okkur Monsters, Godzilla (’14) og næst væntanlegur með Rogue One.

Evans, aftur á móti, hefur sannað sig – tvisvar – sem einn fremsti leikstjórinn í hasar- og slagsmálageiranum, með hina eitursvöluðu og helmögnuðu Raid-tvennu undir belti sínu (ásamt Safe Haven kaflanum úr V/H/S 2). Hins vegar hefur Evans ekki verið mjög sýnilegur upp á síðkastið, en við þiggjum allt frá honum sem er í boði.

Leikstjórinn ákvað nú fyrir stuttu að búa til stuttmynd, í tilraunaskyni umfram annað. Mögulega hefur honum leiðst tilhugsunina að hafa ekki stigið á bíósett í dágóðan tíma, en þessi fimm mínútna stuttmynd er fín afsökun til þess að leyfa honum að spreyta sig með kameruna, koríógröff og þrjá samúræja að slást.

Það er varla neinn söguþráður né innihald eða svo mikið sem titill, bara þrír fyrrum samstarfsmenn hans að sýna hvað þeir geta. Stuttmyndin var plönuð á innan við viku, skotin á þremur dögum – og hún er ansi töff!

Evans leyfir því miður engar embed-stillingar á vídeóið, þannig að best er að smella hingað til að kíkja á.