Annað en mætti auðveldlega halda, þá er þetta ekki grín. En leikstjórinn Robert Rodriguez hefur unnið að sérstöku leyniverkefni að undanförnu með engum öðrum en John Malkovich. Heimildir segja að þeir séu með kvikmynd í erípunum, en mynd sem enginn sem les þetta fær nokkurn tímann að sjá. Hún verður gefin út í nóvember árið 2115.

Þessi mynd heitir 100 Years og fær hún að sitja læst í tímastilltum öryggisskáp í bókstaflega heila öld.

Hvers vegna??

Nú, á bakvið þetta allt saman liggur rándýr og metnaðarfull áfengisauglýsing fyrir dannaða Louis XIII koníakið, líkjör sem er orðið 100 ára og flöskurnar sem til eru í umferð voru allar framleiddar árið 1915. Talsmenn vörunnar gáfu út yfirlýsingu þar sem kom fram, í tilefni endingu hennar, að draumurinn væri að skilja eftir ögrandi listaverk sem kafar út í dýnamíska samband fortíð, nútíðar og framtíðinnar.

Forstjóri Louis XIII, að nafni Ludovic du Plessis, sóttist persónulega eftir Malkovich og opinberaði að hann væri „besti leikari sinnar kynslóðar!“ Ekki nóg með það heldur bað hann Malkovich sjálfan um að koma með hugmyndina fyrir kvikmyndina. Hugmyndin er auðvitað eitthvað sem enginn vill segja frá, en það eina sem Rodriguez hefur gefið upp er að myndin gerist í nútímanum (okkar þá…) og verður „mjög tilfinningarík“.

Sýnishornin hér að neðan eru (ath.) EKKI brot úr þessari umræddu kvikmynd, heldur kitlur til þess að koma með vangaveltanir um hvernig það gæti orðið þegar myndin verður afhjúpuð eftir 100 ár.

Með Malkovich þarna á skjánum er leikkonan Shuya Chang. Þessir þrír tíserar eru allir svipaðir nema hver þeirra kemur með mismunandi útgáfu af framtíðinni, þ.e. hátækniframtíð, eftirstríðs/náttúruríkjandi framtíð og retró-framtíð, eins og vísindaskáldsögur ímynduðu sér hana á fimmta og sjötta áratugnum.

En til að súmma þetta upp: kvikmynd – framleidd af koníaksmerki, með Malkovich, gefin út eftir hundrað ár frá manninum sem gaf okkur Sin City, Machete- og Spy Kids-seríuna. Hlökkum til að sjá þetta aldrei.