Þrátt fyrir stanslaust neteinelti og yfirleitt vonda dóma lætur Michael Bay ekkert stöðva sig frá því að vaða í eina Transformers-mynd til viðbótar, sem verður sú fimmta í röðinni. Trúlega ætlar hann að sjá hvort hann geti skorað lægri Rotten Tomatoes einkunn heldur en seinast, og þarseinast.

Aoe-optimusBay er búinn að vera á fullu að leggja lokahönd á nýjustu mynd sína, 13 Hours: The Secret Soldiers of Benghazi (frumsýnd í þessum mánuði vestanhafs) en lét þau orð falla í viðtali við Rolling Stone að hann stenst ekki mátið að snúa sér aftur að róbotunum.

„Það er gaman að gera bíómynd sem 100 milljónir manna sjá. Þetta er enn gaman, en þetta verður síðasta skiptið… Næst verður einhver annar að taka við.“

Þetta er að vísu ekki fyrsta skiptið þar sem hann segist ætla að bomba út einni Transformers-mynd í viðbót áður en hann myndi endanlega snúa sér að einhverju öðru. Eftir þriðju myndina var hann óviss um að halda áfram og virtist hann býsna ákveðinn eftir frumsýningu (og ekki síður almennu viðtökur) fjórðu myndarinnar.

Bay viðurkennir alveg að hann hefur endurtekið sig talsvert, en nú er honum alvara – þökk sé J.J. Abrams…

„J.J. sagði við mig: ‘Þú ert eini gaurinn sem getur gert þetta’, en nú er kominn tími að gera eitthvað nýtt. Ein í viðbót. Svo er ég búinn!“

Transformers 5 verður frumsýnd á næsta ári, vissulega með helmössuðum Mark Wahlberg í aðalhlutverkinu á ný.
Þá er bara að… vona það skásta.