Lífið er pitsa… pizza plain.
… með engu nema sósu.

Á þessum óskiljanlegu orðum vildi ég byrja, en það er kominn nóvember og í ljósi þess að Kanarnir halda upp á Þakkarhátíðina eftir nokkrar vikur vildi ég nota það sem lélega afsökun fyrir pistil þar sem ég geri lítið annað en að upphefja kvikmynd sem flestir hafa grafið fyrir löngu aftast í heilabúinu.

12204895_10206734620898505_1080386278_nAnnað hvort mun titill greinarinnar ekki hringja neinum bjöllum, eða aðeins vekja þokukenndar minningar um fyrirbæri sem bar heitið „Blossi“ á einum eða öðrum tímapunkti. Ég þori ekki að taka inn í málið að annar gallharður aðdáandi, eða „Blossari“ eins og ég hef ákveðið að kalla okkur svo argalega, sé að lesa, en ef svo skildi vera: Hæ, þú ert ekki einn. Ef þú tilheyrir því sem er óneitanlega meirihlutinn, þá ekki hafa áhyggjur, þetta er vonandi að stefna einhvert.

Árið 1997 var Reykjavík ansi fallegur staður. Að minnsta kosti bæði í gegnum mín kornungu augu sem upplifðu borgina á þeim tíma og í gegnum nostalgíufylltu augun sem skrifa þennan texta hér í dag. Fjárhagurinn átti bjarta framtíð frammi fyrir sér, heimsvæðinginn átti enn eftir að hræða líftóruna úr eldri kynslóðum, tónlistarlífið upplifði það sem ég vil meina að sé fyrri gullöld poppsins/rokksins og við vorum loks farin að prófa nýja hluti innan kvikmyndageirans eftir að Akademían leit við okkur nokkrum árum fyrr.

Í þessu blómabeði fæddist mynd sem tók inn á sig töffarastæla tíunda áratugarins með kryddlegnum rokkstælum indí geirans, sem sá þvílíka upprisu á árunum í kring, og gaf ekki skít í „gott“ vit eða siðferði íslenskrar kvikmyndagerðar. Þetta, dömur og herrar, er þegar Blossi/810551 steig fram á sjónarsviðið; og já, það er titillinn í heild sinni.

MV5BNzA3MTM4NTg0Ml5BMl5BanBnXkFtZTYwNzcxNjk5__V1_SX214_AL_Blossi fylgdi eirðarlausu turtildúfunum Robba og Stellu er þau hittust fyrir tilviljun og lögðu saman upp í ferðalag kringum Hringveginn í von um að forðast sem lengst óhjákvæmanlegt uppgjör við dópsalann Úlf. Myndin er því lítið annað en stefnulaust vegar ævintýri með litríkum persónum og stöðum sem ælir pönki og gelgju yfir íslenskan kúltúr í tilraun til að skapa eitthvað bitastætt og kjötað.

Ef ég á að segja alveg eins og er, þá er þetta ekkert sérstaklega góð kvikmynd ef við lítum gagnrýnum augum á hana, óháð einhverskonar þakklæti sem ég hylli yfir hana neðar í greininni. Hún er frekar illa leikin, oftast kjánalega skrifuð og alls ekki fyrir alla, enda meika ekki margir að horfa á tvo rasshausa slefa út úr sér hálfbökuðum heimspekingum í klukkutíma á meðan að Maus og Sykurmolarnir óma í bakgrunn. En ég hins vegar dái það.

Á árunum eftir að ég sá hana, rann það alltaf meira og meira upp fyrir mér hvernig allt hið slæma sem hægt væri að hella yfir myndina reyndist vera hluti af sjarminum. Aðeins viðbætur í það sem gerir heildina að einstakri perlu innan kvikmyndaiðnaðarins okkar. Stefnuleysið, nautheimsku persónurnar, hlægilega Kanavæðing atburða og flest annað við myndina mallast saman og myndar einkennilegan graut sem… virkar; eitthvað sem hefur eflaust bæði hvarflað að og farið framhjá þeim sem kusu myndina sem framlag okkar til Óskarsverðlaunanna 1998.

Hún tekur sig of alvarlega og ekki nógu alvarlega á sama tíma og nær að halda jafnvægi innan einhverskonar þversagnar þyngdaraflsins. Hvernig mynd sem virkar sem argasta prump frá öllum viðstöddum er bæði áhorfanlegri og verðmætari en flest sem við höfum sankað pening í innan iðnaðarins þennan áratug er mér óskiljanlegt; en einnig óneitanlegt.
Og með því hefjum við sjálfa krufninguna, tilraunina til að setja Blossa á stall sem flestir hefðu eflaust aldrei viljað, eða þorað að setja hana á.

12231130_10206734621258514_520143861_n

Fyrir mér er þetta ekki lengur bara skemmtileg költ mynd frá Klakanum, heldur sýnir hún fram á bæði orku og framsækjandi stefnu sem ég sé sjaldan ef aldrei í dag í myndunum okkar. Hún er svo mikið rokk og ról og öskrar á mann að horfa á sig með fullri reisn; samvinna leikstjóra og handritshöfundar sem vilja brenna sér stað sem fyrst. Þetta er mynd sem þú getur gert eitthvað við, hvort sem það er að henda henni fast í ruslið eða sleikt hana meðfram af ástúð, með þeim áhrifum að enginn getur sagst ekki hafa fengið eitthvað frá henni; hvort sem það er einkennileg víma frá súrrealísmanum eða hlátursköll yfir kjánaheitunum. Yfir þetta er síðan ausað þessi lífsnauðsynlegi kraftur sem aðstandendur sýna: Fyrir þeim eru þeir eru ekki bara að skapa íslenska gamanmynd, þeir eru að skapa íslenska tímamótamynd.

Ég kalla kraftinn lífsnauðsynlegan því íslenskar myndir geta svo sannarlega orðið súrar, eða skelfilega kjánalegar, en ég finn það að þær sem stefna niður sömu braut og Blossi enda aðeins sem reiðilegt áhorf, greinamerkt með leti, viðvaningsskap eða, verst af öllu, bullandi sjálfsblekkingu.

Sumar myndir henda sér svo djúpt niður sína eigin kanínuholu að færð verða rök fyrir snilld þeirra eða göllum fram að enda tímans, og til að vera sanngjarn þá er oftast ef aldrei hægt að sjá muninn; en slík er fórnin sem fylgir því að gefa sig heilshugar að bæði þema sögunnar og hugarástandi aðalpersónanna ef bæði treysta á dyggðir hins óljósa og klúra. T.d. stefnuleysi, óhófsemi og barnaleg bjartsýni, sem er eitthvað sem jafnvel hinir bestu leikstjórar ná varla að fjalla um án umtals og rökfærslu.

Auðvitað er Blossi ekki einhver tjaldstöng í íslenskri kvikmyndagerð, en hún er táknmynd vissrar vitundarvakningar sem ég varð fyrir um eðli myndanna okkar á þessari öld sem ég sakna verulega. Allur sannleikurinn er þó sá að skortur á sköpunarkrafi í verkunum er aðeins toppurinn á ísjakanum þegar kemur að vanda íslenskra kvikmynda, en það er lengri grein fyrir annan tíma. Í millitíðinni gæti hún verið gott viðmið, sem vel er hægt að toppa, fyrir verðandi kvikmyndagerðarfólk sem vill prófa eitthvað öðruvísi, því guð má vita það er kominn tími til.

Eins og stendur er þó því miður aðeins hægt að nálgast myndina í gegnum lánuð VHS eintök með krosslagða fingur, og ætla ég því að nota tækifærið og biðla til aðstandenda Blossa að gefa okkur a.m.k. DVD eintak af þessari perlu, og í mínum villtustu draumum væri Blu-Ray takmarkið, en góða fólkið bakvið þessa Fésbókar grúppu hafa beðið um þetta í nokkur ár. Ísland nútímans á það skilið, og gæti jafnvel þurft á því að halda, að fá þessa mynd í hendurnar í von um að fá sjónarmið á hvað gerist þegar reglubókinni er kastað brosandi út um gluggann.