Aðalkarakterinn Jeff, leikinn af James Stewart, er ljósmyndari sem er fastur í íbúðinni sinni vegna fótbrots og hittum við hann á síðustu batavikunni sinni af átta. Til að drepa tímann byrjar hann að fylgjast með nágrönnum sínum út um gluggann og verður vitni að mögulegu morði.

Ég hef hugsað og pælt mikið í þessari mynd síðan ég horfði á hana, Rear Window. Ég var að sjá hana í fyrsta skiptið, ótrúlegt en satt, og ég get ekki hætt að bera hana saman við svipaðar myndir; spennudrama þar sem atburðarásin gerist bara á einum stað. Buried, Frozen (ekki Disney myndin) og Phone Booth sem dæmi. Að sjálfsögðu snúast þær reyndar allar um fólk sem er í lífshættulegum aðstæðum og vilja alls, alls ekki vera þarna. Buried gerist t.d. öll ofan í kassa á stærð við manneskju og er takmarkað súrefni í boði. Ryan Reynolds sýnir stórleik og er algjörlega frábær. Mæli klárlega með henni ef þið hafið ekki séð hana. James Stewart er ekki beint í lifshættulegum aðstæðum en hann er svo sannarlega fastur í litlu herbergi gegn sínum vilja og myndin gerist öll þar. Hitchcock daðrar ekki einu sinni við gera einangrað atmó. Myndavélin og íbúðirnar vinna svo vel saman í að skapa opið rými. Hitchcock lét byggja húsin og innrétta íbúðirnar algjörlega eftir sínum haus sem útskýrir risastóru gluggana sem Jeff nær að glugga í.

James Stewart er, eins og vanalega, hinn fullkomni „leading man“. Sjarmerandi og sannfærandi í öllu sem hann gerir. Það er erfitt að halda ekki strax með honum og áhugi hans á nágrönnum smitast yfir á áhorfendur og kveikir undir ákveðni forvitni sem býr innra með okkur öllum. Þessi forvitni er einmitt sú sem heldur allri spennunni. Hér er engan hasar eða glæpagengi að finna heldur einungis takmarkað sjónarhorn Jeffs og stanslaus forvitni. Það er ekki einu sinni spurning um hver drap fórnarlambið heldur spurning um hvort það sé í rauninni eitthvað fórnarlamb og hvort glæpur hafi verið framinn. Bæði hin æðislega Grace Kelly og frábæra Wendell Corey eru glæsilegar í sínum hlutverkum. Ástarsambandið hjá Stewart og Kelly er góð ádeila á mismunandi stéttir og störf. Óvissan og raunverulegu áhyggjurnar um hvort þau geti í raun og veru aðlagast lífstíl hvor annars, hún gríðarlega efnuð og hann fátækur ljósmyndari. Sambandið er hreinskilið og passar fullkomlega inn í heildar andrúmsloftið sem einkennist af óvissu og efasemd.

Í heildina litið alveg klárlega með betri myndum allra tíma. Stór orð en eiga svo sannarlega við. Rear Window var ekki upphafið á neinni þekktri klisju eins og svo margar aðrar vinsælar myndir frá þeim tíma heldur er einstök perla sem helst enn í dag. Þó auðvitað hafi hún oft verið endurgerð í mörgum formum.