Bíó-, sjónvarps- og þemafíklar athugið! Nú hefur glænýtt nördafyrirbæri göngu sína á Húrra og mun yfirtaka staðinn í ljúfum fíling öll sunnudagskvöld, undir heitinu Myndbandakerfi fjölbýlishúsa! Einn listrænn stjórnandi eða glápsstjóri velur efni sem tekið er fyrir hverju kvöldi og svo sett í gang og látið rúlla til lokunnar. Popp og snakk í boði hússins og tilboð á barnum jafnvel.

Myndbandakerfi Fjölbýlishúsa gengur út á það að sökkva sér ofan í góðar þáttaraðir, framhaldsmyndir eða bara eitthvað myndefni í ákveðnu þema í marga klukkutíma þar til hver fruma í líkama þínum er orðin samrofin söguþræðinum og veruleikinn skiptir ekki lengur máli.

Fyrsti glápstjóri er Hugleikur Dagsson, myndlistamaður, uppistandari og atvinnunörður. Hann mun sýna SPACED. Gamanþættina sem Edgar Wright gerði áður en hann gerði Shaun of the Dead, Hot Fuzz og World’s End.

Sýndar verða báðar seríurnar, sem eru u.þ.b. 6 gleðilegir klukkutímar samtals. Ef þú ert Edgar Wright aðdáandi en hefur óskiljanlega ekki enn (fundið eða…) lagt í þessa litlu gersemi er engin afsökun fyrir því að hundskast ekki á Húrra og sjá þetta í prímstemningu. Fjörið hefst kl. 19:00.

Við Spaced-aðdáendurnir ætlum í millitíðinni að kanna hvað Bryan hefur verið að bralla skemmtilegt: