„The War is Eternal. His Mission is Just the Beginning.“

Priest er skólabókadæmi um afþreyingarefni… fyrir stráka. Það er ekki beint óvenjulegt að setja presta á móti vampírum en það er alveg nýtt að láta prestana vera sérþjálfaða stríðsmenn sem að auki hafa yfirnátturulega krafta. Það besta við þessa mynd er þessi ótrúlega flotti heimur sem hún gerist í. Hún gerist í framtíð þar sem kirkjan stjórnar öllu með ótta og heilaþvætti (sem er ekki erfitt að ímynda sér). Borgirnar heita The Cathedral og Jericho og það eru krossar og styttur af dýrðlingum allsstaðar. Til að verjast ógn vampíranna var sérsveit presta komið á til að drepa kvikyndin.

Það má finna samlíkingar í þessari mynd með Blade og hugmyndum í þeim myndum um daywalker vampírur. Þessi mynd minnti mig hinsvegar mest á Daybreakers að því leiti að myndirnar bjuggu til flottan heim með vampírum en myndin stóð ekki alveg undir flottheitunum. Þetta er samt skemmtileg ræma. Paul Bettany er fínn sem þjáði presturinn og Karl Urban sleppur sem illmennið. Fín leið til að drepa 87 mínútur.

„After all, if you’re not committing sin… you’re not having fun.“

Leikstjóri: Scott Charles Stewart (Legion, Dark Skies)