Stutta útgáfan:
Hérna er snúið skemmtilega upp á hugmyndina um að Guð sé meðal oss og myndin er í senn krúttleg og groddaraleg, en hún verður þó aðeins of krúttleg á köflum og söguuppbyggingin er frekar köflótt.

6

 

 

Langa útgáfan:
“Hvað ef guð væri einn af oss” söng Joan Osborne um miðbik 10 áratugarins. Margar bíómyndir hafa leikið sér með guðshugmyndina en hugsanlega er The Brand New Testament eftir leikstjórann Jaco Van Dormael búin að komast hvað næst því að gera mynd þar sem Guð er í raun einn af okkur (samt ekki alveg).

Aðalpersóna myndarinnar er þó ekki guð sjálfur, heldur dóttir hans, Ea að nafni. Hún er einungis 10 ára gömul en ekki sátt með stöðu sína. Hún býr ásamt föður sínum og móður í lítilli íbúð í Brussel en hefur þó aldrei farið út fyrir hana. Guð stjórnar heiminum með einkatölvunni sinni en dag einn nær Ea að hnupla lyklunum að tölvuherberginu og hakkar tölvuna með því að senda út dauðdaga allra jarðarbúa til þeirra. Við þetta fer allur heimurinn í uppnám en þetta er liður í áætlun Eu í að gera heiminn að betri stað þar sem hún hefur að finna sex postula (til viðbótar við þá 12 sem bróðir hennar átti) og ætlar sér að skrifa glænýja testamentið, með hjálp róna eins þar sem Ea telur sig ekki vera nógu góða að skrifa. Á meðan þessu öllu stendur reynir Guð að leita dóttur sína uppi og stöðva áætlun hennar.

BrandNewTestament-3

Hér er sannarlega á ferðinni frumleg hugmynd og skemmtileg nálgun á guðshugmyndina. Margir hafa ímyndað sér að ef guð er til hljóti hann vera algjör bastarður miðað við alla illskuna í heiminum, og hér er hann sýndur sem einn mesti bastarður og drullusokkur sem hægt er að hugsa sér. Þessi guð er stoltur af því að hafa fundið upp allt hið slæma í heiminum og það sem hann hefur einna mest gaman af að gera er að finna upp ný lögmál yfir slæma hluti (t.d. fáum við að sjá augnablikið þegar hann ákveður að brauð með sultu skuli alltaf detta með sultuhliðina niður).

Ef það er eitt orð sem væri hægt að nota til að lýsa The Brand New Testament er það líklega bara orðið Evrópsk. Þessi mynd gæti varla verið Evrópskari. Það er erfitt að lýsa því nákvæmlega hvað í því felst en það lýsir sér kannski best í tóni myndarinnar. Ef þetta væri Bandarísk mynd væri hún eflaust mun væmnari, en þar sem hún er Evrópsk er hún í senn krúttleg og groddaleg. Þetta er mynd með lítilli stelpu í aðalhlutverki en hikar þó ekki við að sýna hana æla auk þess sem hún heimsækir strippstað þar sem einn af postulunum hennar er fastakúnni. Þetta er líka mynd þar sem ástin kviknar við hljóðupptöku fyrir klámmynd.

BrandNewTestament-1

En eins frumleg og sniðug og flippuð og þessi mynd er þá gengur hún ekki alveg upp í heildina. Fyrir það fyrsta er stígandinn í myndinni mjög upp og niður. Myndin eyðir aðeins of miklum tíma í suma hluti og of stuttum í aðra, ákveðnir hlutir eru ekki nógu vel byggðir upp á meðan dvalið er of lengi við aðra sem eru minna mikilvægir. Uppbygging myndarinnar er einfaldlega þannig að plottið er byggt upp og sett af stað frekar snögglega og síðan flakkar Ea á milli postulanna sex og við fáum sögu hvers og eins. Postularnir eru misáhugaverðir þannig að sumir kaflarnir verða skemmtilegri en aðrir. Síðan er allt hnýtt saman í lokin en þó full snögglega, endirinn er sniðugur en full brattur. Það er eins Dormael hafi varla nennt að setja upp söguna eða klára hana heldur vildi bara dvelja við postulana mestallan tímann.

Í öðru lagi verður síðan að segjast að myndin er kannski aðeins of krúttleg. Krúttstuðull myndarinnar er ansi hár og oft kemur það skemmtilega út en stundum verður þetta fullmikið af hinu góða og húmorinn á köflum hálf barnalegur. Tónninn í myndinni er nokkuð stöðugur að mestu en nær kannski ekki alltaf réttu jafnvægi til að hann virki nógu vel í heildina.

BrandNewTestament-4

En þrátt fyrir þetta erThe Brand New Testament að mestu fín skemmtun og getur talist bæði frumleg og metnaðarfull. En miðað við köflóttann stíganda og uppbyggingu sögunnar hefði hún mögulega virkað betur sem bók.