Söngleikja- og ABBA-aðdáendur hoppuðu margir hæð sína fyrir skömmu þegar Universal Studios tilkynntu að von væri á Mamma Mia! framhaldi. Mun það bera heitið Mamma Mia: Here We Go Again og er gert ráð fyrir að nýi söngleikurinn tjútti í kvikmyndahús þann 20. júlí 2018 (tíu árum og tveimur dögum eftir að fyrri myndin kom út).

Allt upprunalega leikaraliðið mun mæta aftur og syngja ABBA smelli sem ekki heyrðust í fyrri sögunni – þó margir spyrji sig eflaust hvort þeir þekktustu hafi ekki flest allir verið notaðir í fyrri lotunni. Engu að síður eigum við von á frekari söng frá Meryl Streep, Pierce Brosnan (ójá!), Amanda Seyfried, Colin Firth, Stellan Skarsgård, Dominic Cooper, Julie Walters og Christine Baranski.

Myndinni verður leikstýrt af Ol Parker sem skrifar einnig handritið en áður hefur hann skrifað handrit að The Best Exotic Marigold Hotel og framhaldi hennar. Benny og Björn munu að sjálfsögðu snúa aftur og sjá um tónlistina og hvaða ABBA lög fá endurlífgun í myndinni.

Þegar myndin kom út árið 2008 græddi hún yfir 600 milljón dollara á heimsvísu og því hafa margir undrað sig á því að framhaldið hafi ekki komið fyrr. Á íslandi er hún ein aðsóknarmesta mynd allra tíma og vel að því komin enda sló hún allsvakalega í gegn og seldust hvorki meira né minna en 119 þúsund miðar á hana! – þar af voru yfir 6 þúsund sem seldust á sing-along sýningar.

Miðað við velgengni myndarinnar (og framhaldsbeitu-æðis Hollywood) er satt að segja frekar skrítið að „Mamma Mia 2“ hafi ekki verið sett í forgang fyrr.

Heyrum aðeins í Pierce…

… eða ekki.