Phantom Thread er nýjasta kvikmynd hins magnaða leikstjóra Paul Thomas Anderson. Útlit er fyrir að myndin verði sú síðasta sem snillingurinn Daniel Day Lewis leikur í sem eru afar slæm tíðindi. Lewis sagði í viðtali nýlega að hann hefði verið mjög leiður eftir gerð myndarinnar og fundið fyrir mikilli þörf fyrir að hætta. Nánari skýringar gaf hann ekki.

Þessi mynd kann að virka þurr og leiðinleg en hún er það alls ekki. Þetta er ótrúlega vönduð og fáguð mynd sem rennur niður eins og 18 ára koníak. Myndin er vissulega dramatísk en hún er líka glettilega fyndin og vel þróaðar persónur halda manni límdum við skjáinn frá upphafi til enda. Það er sorglegt ef rétt reynist að myndin fari ekki í almennar sýningar á Íslandi en það er umhugsunarefni fyrir þá sem láta sig varða þróun kvikmyndamenningar hér á landi. Ég hef á tilfinningunni að þessi mynd muni vaxa í áliti með tímanum og jafnvel vera talin meistaraverk áður en langt um líður.

“Kiss me, my girl, before I’m sick.”

Leikstjóri: Paul Thomas Anderson (Magnolia, Boogie Nights, There Will Be Blood, The Master)