„Persona“ er ein almerkilegasta karakter- og sálfræðistúdía sem kvikmynduð hefur verið. Hún er eitt af fjölmörkum meistaraverkum snillingsins Ingmar Bergman (sem því miður er ekki sérlega mikið í tísku meðal kvikmyndaelítunnar þessa dagana) og fjallar um þekkta leikkonu sem skyndilega hættir að tala án sjáanlegrar ástæðu. Slík hegðun er túlkuð af læknum hennar sem merki um geðrof, og er leikkonan sett undir stjórn hjúkrunarkonu sem sér um hana dag og nótt. Þögn hennar fer með tímanum að þrúga hjúkrunarkonuna og hún stendur sig að því að opna sig fyrir henni og segja henni öll sín myrku leyndarmál. Smám saman á sér stað yfirfærsla á persónuleika hjúkrunarkonunnar yfir á leikkonuna og við hættum að vita hvor þeirra er hvað er karakterar þeirra byrja að renna saman í eitt.

Myndin er borin uppi af stórbrotnum frammistöðum leikkvennanna Bibi Anderson og Liv Ullman, og ljá þær sálfræðilegri dýpt handritsins frábær skil. Þemu myndarinnar; hvernig við túlkum aðra, þeir túlka okkur og hvernig við getum í raun aldrei þekkt hvert annað nema á yfirborðskenndan hátt, eru einnig frábærlega komið til skila sjónrænt með kvikmyndatöku Sven Nykvist og nákvæmri leikstjórn Bergmans. Myndin er opin fyrir túlkun og heldur áfram að gefa af sér því meira sem henni er velt fyrir sér.