Stutta útgáfan:
Ójöfn, melódramatísk og hlægilega yfirdrifin. Þetta er fúl sigling um geiminn.

 

 

 

Langa útgáfan:

Það liggur ákveðin þversögn að baki þróunnarsögu kvikmyndarinnar Passengers, a.m.k. að mati undrirritaðans. Miklum pening var hent í handrit sem var á einum tímapunkti girnileg klausa á Svarta Listanum yfir flottustu óframleiddu verkefni Hollywood, og í kjölfarið hækkaði veðið sem undir lá og því minna olnbogarými fyrir áhættur. Fallegir og rándýrir leikarar voru fengnir, fjármagnið leyfði sér að rétt svo slefa yfir níu núllin, og ósmekklegum eiginleikum handritisins sem gætu mögulega sett almennan áhorfanda í óþægilega stöðu var breytt. Þetta er alls ekkert nýtt innan kvikmyndageirans, en það sem stendur upp úr í tilfelli Passengers er hve grunnt er að hafsbotni vafasömu hlutum upprunalega handritisins; á meðan myndin eins og hún er framsett uppi á hvíta tjaldinu, öll slípuð með tannkremsbros, reynir af bestu getu að láta eins og ekkert sé.

Hún fylgir geimfarinu Avalon þar sem það er skriðið af stað í 90 ára ferðalag til nýlenduplánetunnar Homestead II í öðru sólkerfi. Í kjölfarið á þungu loftsteinaregni verður rafmagnsleysi sem vekur upp rafvirkjann Jim af djúpsvefni nánast heilli öld of snemma. Eftir eitt ár af einsemd og eirðarleysi, ákveður Jim að taka til sinna ráða og vekja annan farþega í von um félagsskap: Rithöfundinn Aurora, sem hann hefur haft augastað á síðustu mánuðina.

Það er lítur enginn framhjá því að kveikiþráður sögunnar er á einstaklega gráu svæði siðferðarinnar, og myndin sjálf meðtekur það upp að vissu marki; en þar kemur einmitt glóandi miðja vandamálsins sem teygir sig út í (nánast) alla kanta myndarinnar. Það er augljóst að aðstandendur Passengers sáu tækifæri til að gera fallega og spennandi geim-gaman-drama-rómantík, en handritið sem myndi bjóða upp á það hafði frekar skrýtinn og myrkann endi og það bara gekk ekki. Hins vegar, eins og þið lásuð af sögulýsingunni hér fyrir ofan, fékk upphafið að halda sér. Þannig höfum við vísindarskáldskap byggðan á vafasamri (og áhugaverðri) ákvörðun aðalkaraktersins, en spilar sig síðan sem bæði sykursætan ástarleik og flotta hasarmynd án þess að veita siðferðinni mikla hugsun. Ég er ekki að reyna að vekja upp einhverja móralska umræðu hérna um Stokkhólmseinkenni eða kynjapólítík; heldur frekar að benda á ójafnvægið sem heldur sér út atburðarrás myndarinnar þar sem þú finnur fyrir mun áhugaverðri sögu grafna undir öllu glitrinu.

En við erum hérna komin til að líta á myndina sem endaði í bíóum, og sú mynd er satt að segja algjör klessa. Í raun eru þetta þrjár myndir í einni, Cast Away í fyrsta þriðjungnum, nánast hvaða rómantíska gamandrama sem er út miðjuna, og Apollo 13 út síðasta þriðjunginn. Hver hluti myndarinnar er svo graður að komast yfir í þann næsta að bæði tapast allur safinn sem hefði verið hægt að kreista úr þeim, og þér líður eins og það vanti senur eða að handritið reddi sér jafn óðum til að gera skiptingarnar eins fljótar og hægt er. Ég er kannski að daðra við spoiler’a hérna, en þegar að hápunktur sögunnar hefst er eins og myndin fatti að 90 mínúturnar sem leiddu upp að honum voru í rólegari kantinum og að dramað beindist frekar inn á við frekar en út. Því þurfti að skapa spennuþrungin augnablik á við fjórar kvikmyndir í einu og hleður myndin hverju vandamálinu ofan á annað á nokkurra mínútna fresti; úr verður hlægilega yfirdrifinn lokakafli sem nær að sökkva ræmunni endanlega.

Það er ekki eins og hún sveif á skýi fram að því. Vond samtöl pipra margar senurnar og tónlistin yfirselur hverja tilfinningu svo illa að þú gætir haldið að alvöru tónlistinni hefði verið skipt út á síðustu stundu fyrir eitthvað meira „Hollywood“-legt. Samanburður við Disney mynd verður bara auðveldari þegar ostalegt, frumsamdið popplag ælir yfir þig um leið og kreditlistinn byrjar að rúlla. Nei, veistu, Disney myndir eru ekki einu sinni jafn bersýnislega að segja þér hvað þér á að finnast í hverri tiltekinni senu.  Eini góði punkturinn við yfirdrifnu tónlistarnotkunina er þegar að myndin þarf að framsetja einstaklega neikvæða tilfinningu, þá fer hún svo langt að það verður hálf magnað.
Ég get verið góður í eina eða tvær setningar og sagt að myndin lítur allavega vel út, eða svona ef maður lítur framhjá bónuðu sjampó áferðinni sem liggur yfir öllu. Ókei, hálfa setningu.

Að vana vinna Chris Pratt og Jennifer Lawrence verk sitt vel, en það er ekki eins og sé verið að krefjast mikið af þeim. Síðan þarf það að segjast að J-Law selur sig alls ekki vel sem rithöfund, ekki fyrir fimmaur. Þeir fáu aukaleikarar sem birtast, Michael Sheen og Lawrence Fishburne, eru sjarmerandi, en báðir eiga óþægileg augnablik sem gera þá nánast að handritsreddingum út af fyrir sig. Það er samt hægt að hlæja að Sheen og ég veit ekki, kannski er það nóg.

Ef ég á að reyna að summa þetta upp þá verð ég að koma aftur að fyrsta puntki gagnrýnarinnar: Um ójafnvægið sem myndin skapar með upphafsákvörðun aðalkaraktersins og framleiðslugreddunni bakvið tjöldin. Hún kostaði yfir 100 milljónir dollara gott fólk, þessi saga. Það hljómar eins og klisja, en við það að horfa á Passengers hugsaði ég aftur og aftur um spakmælið að egia kökuna sína og borða hana líka. Myndin virkar hreinlega ekki og hver rammi sýnir fram á reipitogið milli áhugaverðari sálfræði persónanna, og glitrandi stórmyndina sem er verið að selja manni. Samband aðalkarakteranna fellur flatt og melódramatíkin nær jafnvel út í tónlistina. Þegar að sagan veit ekki einu sinni hvað hún vill vera hefurðu eitthvað í höndunum sem fer að líkjast lestarslysi. Eða, bara, geimskipaslysi.