Sem mikið bíó- og sjónvarpsbarn sótti ég margt í heimi kvikmynda og sjónvarpsþátta. Ég lærði til dæmis hver fann upp ljósaperuna í Simpsons þætti, ég fann innblástur fyrir einkunnarorð mín í Inception en fyrst og fremst leitaði ég og fann oft föðurímynd í kvikmyndum. Sem skilnaðarbarn er það kanski ekki óalgengt.


Eitt þekktasta dæmið um skilnaðarbarn sem lætur samband sitt og föðurs síns hafa áhrif á kvikmyndir sínar er Steven Spielberg. Í flestum af myndum hans er faðirinn oftast mikið fjarverandi, vinnualki sem nær engu sambandi við fjölskylduna eða bara alveg úr myndinni því samband Spielberg og föður hans var afar slæmt í mörg ár. E.T. er kannski sú mynd þar sem við sjáum það best koma fram þegar strákurinn leitar að vini í geimveru vegna fjarveru föðurs. Samband þeirra feðga hefur þó breyst í dag eins og margar mynda hans sýna t.d. War of The Worlds, Hook og meira að segja Indiana Jones 5.

war_of_the_worlds„Pabbadrama“ hefur lengi verið vinsælt í ævintýrum, bókmenntum og kvikmyndum. Hvort sem það er látinn faðir, slæmur faðir, fjarverandi faðir, fáránlega strangur faðir eða önnur tegund þá er föðursambandið oftast til staðar að einhverju leyti. Þetta heillar eða grípur menn að einhverju leyti en ástæðan getur verið jafn flókin og dæmin eru mörg. Margir þekkja það kanski að dást að einhverjum föður í kvikmynd og óska þess að einhverju leyti að pabbi gamli gæti verið eitthvað líkari þessum föður eða jafnvel að pabbinn væri nákvæmlega svona. Af hverju? Til eru mörg dæmi um af hverju feður af hvíta heilla mann svona. Í fyrsta lagi þá eru kvikmyndafeður oft alvitrir, leysa öll mál og bjarga deginum. Vandamálin geta verið stór eða smá, mörg eða fá. Allt frá vandræðalegu spjalli um kynlíf (American Pie) til mannráns í Evrópu (Taken).

lifeisbeautifulFrægustu feðurnir líklegast í allri kvikmyndasögunni eru Atticus Finch í To Kill A Mockingbird, faðir Superman Jor-El og auðvitað konungurinn sjálfur Múfasa. Eftir hjartnæmt atriði undir stjörnubjörtum himninum fannst mér eins og ég hefði misst eigin föður þegar Simbi gat ekki vakið hann. Annar skemmtilegur faðir sem gerði hvað sem er fyrir son sinn og bjargaði honum (og ég fer svo langt að segja að hann hafi líka bjargað geðheislu hans) var Guido í Life Is Beautiful. Hjartnæm saga um helför eins föðurs fær mann til að hugsa um hvað eigin faðir myndi gera. Faðir Juno sem stóð við bakið á henni alla meðgönguna/myndina án þess að sýna vott af vonbrigðum í garð til dóttur sinnar fékk einnig alla mína aðdáun. Myndir sem þessar vekja upp tilfinningar sem geta verið allt frá hamingjusömum hlátri til niðurdrepandi gráturs. Það er afar einstaklingsbundið hvað hefur áhrif en áhrifin eru til staðar.

Önnur tegund af pabba sem við sjáum oft er harði pabbinn sem erfitt er að fá viðurkenningu hjá. Oftast læra feðurnir á mistökum sínum og samband feðga/feðgina verður þeim mun betra í enda myndarinnar. Þessir kvikmynda feður eru ekki alltaf úr gæðum gerðir og hugsa oftast ekki um hag barnsins fyrst. Þeir eiga til að sýna heraga og öll uppreisn er illa liðin. Tim Burton veitti Willy Wonka ákveðna dýpt í Charlie and the Chocolate Factory þegar hann kynnti til sögunnar föður hans Tannlækninn. Þar fáum við að kynnast því þegar foreldri stendur við orð sín um að yfirgefa barnið fari það af sporinu en einnig lærum við að það er aldrei of seint að bæta sambandið. Spielberg myndin Hook veitti mörgum von því þar lærir faðirinn á mistökunum sem hann gerði áður og er reiðubúinn til að fórna vinnunni fyrir fjölskylduna.

hook5

Svo koma þessir feður sem hugsa alfarið um rassgatið á sér en þegar við nálgumst kreditlistann fara þeir læra að hugsa um aðra og þá sérstaklega um börnin sín og fjölskylduna. Þetta eru feðurnir sem við sjáum í myndum á borð við Real Steel, Getting Even With Dad og auðvitað Return of the Jedi. Í íþróttamyndum eins og Goal!, Cool Runnings, Billy Elliot og mörgum fleirum kemur fram þessi faðir sem vill að barnið feti í eigin fótspor eða jafnvel aðra hefðbundna braut en barnið sjálft vill. Oftast eiga þessir feður til að átta sig á mistökum sínum og samþykkja barnið sitt og hvað sem það vill gera.

Kvikmyndagerðarmenn vita vel hvaða takka þarf að ýta á til að vekja áhuga áhorfenda. Einhvern veginn virðist samband aðalhetjunnar við föður sinn verða að vera í fyrirrúmi, hvort sem það er til að kynna ástæður hetjunnar eða til að áhorfandi skilji betur persónuna og hvöt hennar. Flestar ofurhetjur í dag eiga við einhver pabbavandamál að stríða, meira að segja líka skúrkarnir.

v

Disney myndir eru margar umvafðar einhverju fjölskyldudrama og þar er pabbavesen afar vinsælt. Pabbadrama þar sem pabbinn er dáinn, lítið heima, samþykkir ekki þá braut sem barnið vill feta, of strangur eða annað. Nokkur skemmtileg dæmi:

Mulan: leitar að viðurkenningu frá föður sínum
Mjallhvít/Öskubuska: Pabbinn dáinn og ill stjúpa í þokkabót
Hefðarkettirnir: Föðurlausir kettlingar
Litla hafmeyjan: Faðirinn strangur og hún stingur af
Bambi: föðurlaust dádýr

Þar sker Finding Nemo sig soldið úr þar sem sagan er sögð frá sjónarhorni föðurs sem gerir hvað sem er til að bjarga syni sínum. Auðvitað koma svo upp Disney myndir þar sem til dæmis fjölskyldulífið er fullkomið, myndin er þakin „mömmudrama“ eða aðalpersóna er jafnvel laus við fjötra fjölskyldunnar.

Föðurvandamál af einhverju tagi þekkja kanski flestir, því eigum við mörg oft auðvelt með að tengjast persónum í kvikmyndum. Hvort sem um er að ræða að við tengjumst henni því við óskum þess að við ættum slíkan föður eða jafnvel af því faðirinn minnir okkur á okkar eigin pabba. Eitt er víst, föðurmyndir munu aldrei hætta að líta dagsins ljós.