„Terror just beneath the surface.“

Eftir að Jaws sprengdi heiminn í loft upp árið 1975 gerðist það sem gerist alltaf í Hollywood, menn fóru að gera eftirlíkingar í von um að græða sand af seðlum. Bestu eftirlíkingarnar sem ég hef séð eru Piranha (1978) og Orca. Þó ég segi að þessi mynd sé eftirlíking er hún í raun algjör andstæða. Háhyrningurinn er sýndur á fyrstu mínútu, hann er ekki falinn í klukkutíma eins og í Jaws. Stærð hans er ekki ýkt enda er það óþarfi með svona stórt dýr. Að lokum er hann í ekki illmennið eins og hákarlinn var. Vondi kallinn í þessari mynd er maður leikinn af hinum frábæra Richard Harris.

Þetta er hefndarsaga. Maður drepur óléttann maka háhyrnings og hvalurinn ákveður að hefna sín með látum. Það er mikið gert úr því hversu gáfaðar þessar verur eru og ég svo sem efast ekki um að mikið af því sé rétt. Það er hinsvegar gengið aðeins of langt í þeim efnum og hvalurinn látinn líta út eins og Lassie eða eitthvað. Þessi mynd er samt mjög vel gerð, vel leikin, vel tekin og mjög skemmtileg. Það er notast við alvöru hval í flestum tilvikum og það tekst mjög vel að gera hann sannfærandi. Þó svo að það sé mikið ótrúlegt í myndinni á maður ekkert að pæla of mikið í því. Þetta er gullmoli sem ég er ánægður með að hafa séð.

„Can you commit a sin against an animal?“

Leikstjóri: Michael Anderson (Logan´s Run, 1984, Around the World in Eighty Days)