Það getur alls ekki verið auðvelt að skella sér í tökur á risastórri framleiðslu þegar undirbúningur hefur verið takmarkaður, en Peter Jackson hafði engra kosta völ þegar Guillermo Del Toro neyddist til þess að bakka út úr The Hobbit (sem upphaflega var ætlaður sem ‘tvíleikur’) vegna tafa með fjármagnið.

Del Toro eyddi 18 mánuðum í forvinnslu og skipulag og eftir að það fór suður neitaði Jackson að skjóta kvikmynd sem væri svo brennimerkt stíl annars leikstjóra, þannig að hann ákvað að endurmóta allt hönnunarferlið… frá grunni.

Á nokkrum mánuðum…

Jackson hafði oft áður sagt að bókin um Hobbitann hafði aldrei verið í miklu uppáhaldi hjá sér og í kjölfarið hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir tvennt: í fyrsta lagi fyrir að rembast of mikið við það að tengja saman sitthvorn þríleikinn, sem kemur mér að öðru málinu; þrjár myndir úr einni bók og nokkrum viðaukum þóttu vera stórmistök.*

Hér er stórfurðulega hreinskilið aukaefni sem svarar eflaust spurningum margra sem voru allt annað en ástfangnir af Hobbit-þríleiknum, eða fannst lokabardaginn í The Battle of the Five Armies vera óreiðukenndur og óspennandi.

 

*ath. Hugmyndin um að breyta tvíleiknum í þrjár bíómyndir varð til í miðri eftirvinnslu á fyrstu myndinni, An Unexpected Journey. Og annað en logandi netverjar hafa haldið fram, þá var það hugmynd leikstjórans að bæta við heilli aukamynd. Það var sumsé EKKI ákvörðun framleiðenda – þó við stórlega efumst um að þeir hafi kvartað yfir dollaramerkjunum breytingunni.