Nýverið hófust tökur á endurgerð hinnar klassísku vampírumyndar Nosferatu, en þeir sem standa á bakvið hana söfnuðu fyrir henni á fjármögnunarsíðunni Kickstarter á seinasta ári. Kostnaður endurgerðarinnar mun ekki vera mikill, en aðstandendurnir hafa ákveðið að fara heldur óhefðbundnar leiðir til að komast á leiðarenda.

Framleiðendurnir kjósa að kalla myndina frekar “remix” en enn aðra endurgerðina. Leikararnir munu leika sín hlutverk fyrir framan “green screen” og síðan verður þeim komið fyrir í gömlu myndinni í staðinn fyrir upprunalegu leikarana. Það verður víst líka tal, tónlist og einhverjum atriðum líklega bætt við.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem að framleiðendurnir fara þessa leið þar sem að þeir gerðu nokkurn veginn það sama fyrir “remix” af The Cabinet of Dr. Caligari árið 2005. Það var ansi flókið á þeim tíma en ætti að vera mun auðveldara nú þar sem að tæknin er orðin talsvert betri.

Þeir hafa fengið leikarann Doug Jones í lið með sér og mun hann leika greifann í þessari endurgerð, en hann er einna þekktastur fyrir það að leika Abe Sapien í Hellboy myndunum og The Faun/Pale Man í Pan’s Labyrinth. Eins hefur hann leikið í sjónvarpsþáttaröðunum Buffy the Vampire Slayer og The Strain, en báðar voru sýndar á Stöð 2 hér á landi.

Hann hefur oft leikið hlutverk þar sem hann er illþekkjanlegur vegna hinna ýmissa gerva eins og til dæmis vampíra. Hann hefur komið þeim hlutverkum sem hann hefur tekið að sér almennt vel frá sér og ætti því að vera tilvalinn til þess að leika greifann Orlok.

Reyndar vill kvikmyndaverið Studio 8 líka endurgera Nosferatu en þeir vilja gera það á hefðbundinn máta og hafa þeir jafnvel sagt hvaða leikstjóra/handritshöfund þeir vilja. Vilja þeir engan annan en Robert Eggers, leikstjóra The Witch, sem hann fékk mikið lof fyrir. Nýlega sagði hann þó að hann vilji fyrst gera aðra mynd og geyma þessa til betri tíma þannig að hver veit hvort eitthvað verði af þeirri endurgerð.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem myndin er endurgerð. Fyrsta endurgerðin kom út árið 1979 og var hún kölluð Vampíran Nosferatu (“Nosferatu the Vampyre” á ensku, “Nosferatu: Phantom der Nacht” á þýsku sem gæti verið þýtt sem Nosferatu: Draugur næturinnar) og var leikstjórinn Werner Herzog.

Henni var nokkuð vel tekið af bæði bíógestum og gagrýnendum á sínum tíma og þénaði hún nokkuð vel á meðan hún var í sýningu.

Af henni eru til eru tvær útgáfur; ein þar sem allir tala þýsku og önnur þar sem allir tala ensku. Voru því í raun tvær myndir teknar upp í einu, en Herzog sagði árið 2014 að þýska myndinn væri meira alvöru að hans mati.

Nosferatu

Upprunalega Nosferatu

Árið 1922 kom út þögul kvikmynd sem hét Nosferatu og er sagt að hún sé fyrsta kvikmyndin sem fjallar um vampírur eins og við þekkjum þær í dag. Hún var byggð á Drakúla eftir Bram Stoker, en þar sem þetta er ansi þung, þurr og margorða bók þá tók handritshöfundurinn Henrik Galeen sig til og losaði sig við stóran hluta texta bókarinnar og nöfnum var breytt. Söguþráðurinn varð mun einfaldari fyrir vikið, en grunnurinn var þó enn til staðar.

Kvikmyndinn var frumsýnd í dýragarðinum í Berlín 4 Mars 1922 og heil sinfónía spilaði tónlistina við myndina. Seinna kom í ljós að kostnaðurinn var meiri við frumsýninguna heldur en gerða myndarinnar og virtust menn ekki kunna að fara vel með peninga. Enda varð Nosferatu: Eine Symphonies Des Grauens (“A symphony of horror” á ensku) eina mynd framleiðandans sem kallaði sig Prana-film.

Það hjálpaði ekki að ekkju Bram Stoker, Florence Stoke var send sýningaskráin á heimili hennar í Bretlandi. Einnig fylgdi með teiknuð auglýsing af hinum hryllilega Orlok greifa (Nosferatu), en í auglýsingunni var getið að þar væri mynd á ferð sem væri lauslega byggð á Drakúla.

Sem höfundarréttarhafi Drakúla, leist henni alls ekkert á þetta því hún hafði ekki leyft neinum að gera kvikmynd né fengið borgað höfundarréttarlaun fyrir kvikmyndina. En það sem verra er, er að Drakúla var í raun eina leið hennar til að afla sér tekna, jafnvel þó það borgaði ekki vel. Langt var síðan að nýtt upplag var prentað af öðrum bókum hans en jafnvel þegar þær höfðu verið í sölu þá græddi hún nánast ekkert á þeim. Drakúla var það eina sem fólk hafði áhuga á.

Því gekk Florence Stoker í félag rithöfunda í Bretlandi (“Society of Authors”) og bað þá um að hjálpa henni að fá borgað. Eftir langa og stranga þriggja ára baráttu dæmdi þýskur dómari Florence Stoker í hag í síðasta skipti, en áður en það gerðist hafði Stoker skipt um skoðun og í stað peninga þá vildi hún að öllum eintökum myndarinnar yrðu eyðilögð.

Því var þeim skipað að farga öllum eintökum af kvikmyndinni. Nosferatu átti samt eftir að ásækja Stoker um ókomin ár, meðal annars þegar hún skaut upp kollinum í Bretlandi þó hún ætti ekki að vera til lengur og seinna meir í Bandaríkjunum.

Augljóslega hafði einhver komið allavega einu eintaki frá því að vera eyðilagt og það var sennilega fjölfaldað. Reyndar sýndi þýski dómstóllinn aldrei fram á það að öllum eintökum hafi verið fargað, en upprunalega kvikmyndafilman hefur aldrei fundist svo augljóslega var einhverju fargað.

Fyrir þá sem vilja vita meira um þetta mæli ég með bókinni Hollywood Gothic: The Tangled Web of Dracula from Novel to Stage to Screen eftir David J. Skal.