(ath. þetta er aðsend grein, höfundur er Oddur Björn Tryggvason)

Christopher Nolan er einn af heitustu leikstjórum samtímans og óhætt að segja að kvikmyndaáhugamenn bíða með öndina í hálsinum eftir nýju efni frá honum.

Þó svo að Memento og Insomnia hafi komið honum á kortið þá er það frá og með Batman Begins að maðurinn var nánast settur í guðatölu og síðan þá hefur hann varla stegið feilspor. Einn af hans mörgu kostum, að mínu mati, er hvernig hann kastar líflínu til útbrunna stjarna sem mega muna sinn fíful fegurri og gefur þeim færi á að minna á sig.

 

Nolan - HauerRutger Hauer í Batman Begins

Þessi gæðaleikari frá Hollandi vakti fyrst á sér athygli í hinni stórgóðu „Soldier of Orange“ (1977) eftir Paul Verhoeven og árið 1982 var hann eftirminnilegur í „Blade Runner“ (1982); mynd sem þykir ein besta vísindaskáldsaga sem gerð hefur verið. Hann átti nokkur góð ár á níunda áratugnum og ber helst að nefna „The Hitcher“ (1986); költ mynd af bestu gerð og Hauer var sérlega góður í hlutverki brjálæðings sem skildi eftir sig blóði drifna slóð á þjóðvegum Bandaríkjanna. Tíundi áratugurinn einkenndist af heilalausum hasarmyndum sem, þrátt fyrir talsvert skemmtigildi í mörgum þeirra, vöktu litla athygli og fáir börðu þær augum. Hann var kominn í aukahlutverk í hinum og þessum sjónvarpsþáttum þegar Nolan gaf honum smá hlutverk í „Batman Begins“ (2005). Síðan þá hefur hann bætt við sig 43 titlum og erfitt að segja að ferillinn hafi tekið jákvæðan kipp í kjölfarið. Helst ber að nefna hina ofur-ofbeldisfullu „Hobo With a Shotgun“ (2011) og „Dracula 3-D“ (2012). Þó er hann orðaður við „Expendables 4″.

 

The Prestige, 2006 imageDavid Bowie í The Prestige

Þegar kom að „The Prestige“ (2006) hafði David Bowie lagt tónlistarferilinn á hilluna (tíu ár milli „Reality“ og „The Next Day“ sem kom út í fyrra) og þó svo hann hafi birst í hinu og þessu smáverkefni þá var ekkert þeirra af þeirri stærðargráðu og nýjasta mynd Nolans. Bowie hefur í gegnum tíðina leikið í ansi flottum myndum og staðið sig með mikilli prýði; „The Man Who Fell to Earth“ (1976), „Just a Gigolo“ (1979), „The Hunger“ og „Merry Christmas Mr. Lawrence“ (1983) eru eftirminnilegar myndir og Bowie var einn af þeim fáu sem gat átt farsælan söng- og leiklistarferil. Gaurinn hefur alltaf verið stórfurðulegur og hlutverkavalið eftir því (og stefnur hans í tónlistinni en þetta er ekki vettvangurinn fyrir þá umræðu) en hann minnti heldur betur á sig í „The Prestige“ og var yfirvegaður og fremur lágstemmdur í þessari ágætu mynd. Og leit fantavel út!

 

Nolan - Roberts

Eric Roberts í The Dark Knight

Það kom mörgum á óvart þegar Eric Roberts brá fyrir í heitustu mynd ársins 2008. Maðurinn er með 341 titil skráða á sig á IMDB og því nánast ógjörningur fyrir aðdáendur að komast yfir allt saman; hann virðist hreinlega taka öllu sem býðst og gæðin eftir því. Það breytir því þó ekki að þetta er traustur leikari sem kom sér á kortið í myndinni „Star 80″ (1983) í hlutverki geðbilaðs eiginmanns Playmate stjörnunnar Dorothy Stratten sem hann myrti á hrottafenginn hátt. Einnig var hann tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir flotta frammistöðu í hinni sígildu „Runaway Train“ (1985) en Jon Voight stal þrumunni aðeins frá honum þar. Þar er allt of stórt verkefni að tína út góðar frammistöður síðan þá en í kjölfar TDK ber einna helst að nefna smá hlutverk í „The Expendables“ (2010) þó svo að nafn hans komst ekki einu sinni á plakatið. En aðdáendur þurfa ekki að kvíða framtaksleysi hjá kappa þar sem yfir 40 myndir eru væntanlegar á þessu ári hjá honum. Hvernig er þetta hægt?

 

Nolan - BerengerTom Berenger í Inception

Það voru ár og dagar síðan nafn Tom Berenger birtist á plakati fyrir A-lista bíómynd þegar „Inception“ (2010) kom til. Berenger var þokkalegt nafn á níunda áratugnum og ber hæst að nefna frábæra frammistöðu í „Platoon“ (1986) og var hann tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir vikið. Í kjölfarið komu nokkrar fínar myndir sem náðu þó ekki miklum vinsældum eins og „Someone To Watch Over Me“ (1987), „Betrayed“ (1988), „Shattered“ (1991) og „At Play in the Fields of the Lord“ (1991). Einu undantekningarnar voru „Major League“ (1989) sem sló vel í gegn og „Sniper“ (1993) gekk þokkalega sem og hin frábæra (en hver veit af henni?) „The Substitute“ (1996) sem að minnsta kosti kom út á sléttu. Berenger lagði mikið á sig til að koma „One Man’s Hero“ (1999) á laggirnar en mætti andstöðu frá kvikmyndaverinu (hinu sáluga Orion Pictures) sem ítrekað dró úr fjárútlátum til myndarinnar og kom í veg fyrir almennilega dreifingu af ótta við viðbrögð áhorfenda þar sem bandarísk yfirvöld á tímum Mexíkó/Ameríku stríðsins á árunum 1846-1848 voru gagnrýnd harðlega. Við þessa raun virðist allur metnaður hafa horfið hjá Berenger og margar slappar myndir (og að því er virðist; algert áhugaleysi) hafa einkennt síðustu ár hans. Berenger stóð sig þó vel í „Inception“ og sýndi að hann er ekki dauður úr öllum æðum.

 

Nolan - ModineMatthew Modine í The Dark Knight Rises

Þessi óþolandi leikari fékk heldur betur flott hlutverk í „The Dark Knight Rises“ (2012) og náði að „stinka pleisið“ upp þegar hann birtist. Hvað um það; hann á sér sína fylgjendur og margir voru kátir þegar Nolan valdi hann í myndina sem var beðið eftir með svo mikilli eftirvæntingu að það var ekki fræðilegur að allir gengju sáttir frá. Modine á nokkrar fínar myndir að baki og helst ber að nefna „Full Metal Jacket“ (1987) eftir snillinginn Stanley Kubrick. „Married to the Mob“ (1988) var nokkuð góð sem og „Memphis Belle“ (1990) og svo hin frábæra „And the Band Played On (1993) sem fjallaði um uppgötvun AIDS sjúkdómsins. Modine var eitt af þremur fórnarlömbum „Cutthroat Island“ (1995) sprengjunnar sem virtist nánast þurrka út ferla Geenu Davis og Renny Harlin einnig. Síðan þá hefur nánast ekkert af viti komið frá honum (hin ágæta „Bye Bye Love“ slefaði í bíóhús nokkrum mánuðum á undan Cutthroat) þar til Nolan henti til hans líflínu. Stutt er síðan TDKR prýddi bíóhús og spennandi að sjá hvort Modine rísi upp einnig.

 

Í „Interstellar“ er John Lithgow meðal leikara sem og William Devane (sem reyndar fékk pínulítið hlutverk í TDKR) svo greinilegt er að Nolan heldur uppteknum sið að henda beini til risaeðlanna í bransanum.
Fyrir framtíðar verkefni Nolans myndi ég persónulega hafa gaman af að sjá Armand Assante fá tækifæri til að minna á sig (frammistaða hans í „The Mambo Kings“ er enn ein af mínum uppáhalds). Eða Christopher Lambert; það væri ekki amalegt. Listinn gæti verið langur.