Madmax16Ein umtalaðasta (og að margra mati besta) hasarmynd ársins 2015 er umhugsunarlaust Mad Max: Fury Road. Mynd sem meira að segja er sögð ætla að eltast við nokkrar stórar Óskarstilnefningar á næsta ári ef heppnin er með henni… enda töluvert út fyrir þægindahring Akademíunnar að tilnefna hraðskreiða og kaótíska eftirheimsendaræmu í Diesel-pönk fíling.

Það kom engu að síður meira að segja hinum hörðustu George Miller-aðdáendum á óvart hvað þessum sjötuga leikstjóra tókst að matreiða mikla rússíbanaveislu, sem studdist meira við gamaldags áhættuatriði og praktískar eyðileggingar (með aðstoð tölvubrellna vissulega…) heldur en stórmyndir nú til dags eru þekktar fyrir að gera.

Verandi óformleg endurræsing á Mad Max-myndbálknum gæti þó enn verið að einhverjir hafi aldrei séð myndina sem kom þessu öllu af stað, eina vinsælustu og áhrifamestu költ-mynd allra tíma. Mynd sem verður næst vörpuð upp hjá Svörtum sunnudögum, okkur til mikillar gleði.

Upprunalega Mad Max-myndin gerist í „framtíð“ þegar heimurinn hefur gengið í gegnum hamfarir og algjört samfélagslegt hrun er að skella á. Löggurnar gera sitt besta til að halda uppi lögum og reglu á meðan útlagagengi reyna að brjóta allt kerfið niður og skapa kaos. Hinn leðurklæddi Max Rockatansky gerist skyndilega dómari, kviðdómari og böðull eftir að besti vinur hans, eiginkona og barn eru öll drepin. Maður sem hafði allt með sér í lífinu byrjar smám saman að tapa völdum á eigin geðheilsu og gerist andhetja og götustríðsmaður í hefndarhug. Þeim var nær…

Mad Max frá 1979 gaf á sínum tíma glænýjan tón fyrir heimsendamyndir, bílastönt og er ekki leiðinlegt að sjá þarna Mel Gibson stíga sín fyrstu skref. Hann var aðeins 21 árs þarna.

Hljómar eins og ljúft tímaflakk og grjótharður stemmari. Á ekki að kíkja?