„Why you pursue something is as important as what you pursue.“ – Lou Bloom

Nightcrawler er mynd sem annaðhvort rís eða fellur með lykilframmistöðunni einni og karakternum sem hún snýst í kringum – og mikið helvíti tekst henni að fljúga langt með hvort tveggja. Við kynnumst allslausum, tággrönnum manni að nafni Lou, sem í besta falli má lýsa sem vingjarnlegum tækifærissinna. Framtíð hans liggur í fjölmiðlum eins og hann uppgötvar meira eða minna fyrir slysni, á sviði glæpafrétta nánar til tekið, og með upptökuvél að vopni spýtir hann í lófana og gerir hvað sem hann getur til að ná mest krassandi myndefninu, sem selst að sjálfsögðu til hæstbjóðanda. Því meira blóð, því hærri forgangur – og Lou er staðráðinn í að vera fyrstur með æsifréttirnar, sama hvað mun taka til að útvega þær.

Jake Gyllenhaal er þarna kominn í svaka Taxi Driver-legan performans-trans og, eins og sjá má á kinnbeinunum og augunum, hefur hann grennst skuggalega fyrir rulluna (um 13 kíló eða svo…). Myndin er 150% í hans eigu, nánast meira svo heldur en vanmetna perlan Enemy – þar sem hann lék svo snilldarlega á móti sjálfum sér. Fyrir minn pening er Nightcrawler þó bráðskemmtilega „létt“ og lúmskt truflandi saga um mann sem sanngjarnt er að kalla afburða sósíópata – og það að fólk dragi oft upp Taxi Driver sem samlíkingu við hana er engin tilviljun.

Það er margt sem Lou á sameiginlegt með nokkrum Travis Bickle (þar á meðal tenging þeirra við sín borgarumhverfi og ekki síður að því leyti að báðar myndir sýna hægt og bítandi hvernig hugarástand mannana hringsnýst í átt að vissu geðtapi), nema það að Lou er lúmskari, stabílli að utanverðu og með djöfullegt plan um að ná langt í lífinu. Skemmst er frá því að segja að Gyllenhaal hefur aldrei (ítrekað: ALDREI) verið betri. Hann er forvitnilega lagskiptur og blikkar sjaldan augunum, sem er aðeins brot af því sem gerir hann svo dáleiðandi til áhorfs. Það að Óskarinn hafi sleppt því að tilnefna hann sýnir bara að aldrei á að taka það sem sjálfsagðan hlut að halda að akademían þekki alltaf til um gæði.

Það hversu vel Gyllenhaal virkar í ágengri, víraðri og magnandi hegðun sinni og hvernig hann hættir aldrei að vera spennandi til áhorfs (enda forvitnilegt fag sem kauði hefur valið sér) sýnir fram á hversu frábærlega handritið gengur upp. Samtölin eru skörp, skilaboðin skýr og úrvinnslan bítandi í tengslum við ádeiluna sem hér er varpað á sjokk-áráttu fjölmiðla. Myndin kafar líka aðeins út í myrkari hliðar drifkrafts og þeirra fórna sem fylgja agressífum metnaði, sem nánast gerir þetta að hálfsérkennilegri skilaboðasögu.

Til að gera gott enn betra þá snarar merkilega sjálfsörugg leikstjórn myndinni betur saman í eitthvað sem skilur fullt eftir sig, og það sem truflar mig ef til vill mest við þetta allt er hvernig Lou virkar alls ekki svo óviðkunnanlegur eða ógeðfelldur náungi á yfirborðinu, en áhorfandinn veit betur því fyrsta senan gefur strax upp hans rétta rándýraeðli. Hann er öflugur í mannlegum samskiptum, skipuleggur sig í hel og drífur sig áfram með raunhæfum markmiðum og makalausri orðheppni en er ófær um alla samkennd. Með öðrum orðum: óstöðvandi í sínu fagi. En það sem vegur á móti „kostum“ þessa manns er að hann er m.a. örvæntingafullur og andar að sér kapítalískri hugsun eins og eiturlyfi.

Nightcrawler er leikstjórafrumraun handritshöfundarins Dan Gilroy (litla bróður Tonys Gilroy, sem gerði m.a. Michael Clayton og átti stóran hlut í Bourne-seríunni). Með aðstoð snillingsins Robert Elswit á kamerunni kvikmyndar Gilroy næturveröld L.A. með ákaflega stílískum hætti án þess að ofgera neitt og James Newton Howard skilar af sér flottri tónlist sem rammar inn andrúmsloftið og fangar mátulega kaldan tón borgarinnar. Það er einmitt heildartónninn sem er svo brothættur fyrir Gilroy, en leikstjórinn samstillir sig alveg við karakterinn Lou og leyfir Gyllenhaal svolítið að stjórna ferðinni svo úr verður eitthvað sem er jafnframt óhuggulega fyndið og spennandi. Ekki er síður aðdáunarvert hvernig Gilroy sleppir aðalmanninum sínum lausum í ýmsum löngum tökum þar sem honum er leyft að mónólóga yfir sig án allra erfiða. Máttur leikarans til að eigna sér rammann með því að leika sér með tilgerðarlegan persónusjarma Lous er algjörlega brilljant, en heldur má svosem ekki draga það frá myndinni hvað allir aukaleikarar gera mikið fyrir heildina, þar á meðal Bill Paxton heitinn, Riz Ahmed og Rene Russo – sem eiginkona Gilroys.

Hver áhorfandi metur í raun fyrir sig hvort hér sé léttur og ljótur harmleikur á ferð um það versta í eðli manneskjunnar eða stórfyndin svört kómedía um metnað og lykilinn að velgengni. Sumir hafa m.a.s. dregið það frá myndinni að hún sé andstyggileg en í senn raunsæ allegoría fyrir erfiðin sem fylgja því að brjótast út í kvikmyndagerð, og hvernig þrautseigja, óttaleysi og frumkvæði skipta ekki síður máli heldur en hæfileikinn sem þarf. Í tilfelli vissra einstaklinga, eins og hr. Bloom, kemur drifkrafturinn fyrst og hæfileikinn svo.

Lou er málaður út frá öllum hliðum til að gefa honum réttu dýptina sem þarf til að halda sögunni og mótiveringum hans á þægilegu floti en handrit Gilroy gætir þess að kjafta aldrei frá meiru en þarf. Það er ýmislegt óútskýrt við Lou, sérstaklega þegar kemur að baksögu hans, en myndin og handritið verða einungis betri fyrir vikið því það sést langar leiðir í hvaða átt þetta allt stefnir hjá honum. En nákvæmlega hvar þessi heillandi geðveiki hans endar er partur af fjörinu, ef við leyfum okkur að kalla þetta það.