Stutta útgáfan:
„Hin“ Bond myndin frá 1983 sem ekki allir muna eftir. Óvenjuleg og athyglisverð að vissu leyti en líka frekar hallærisleg og verður að teljast í flokk með síðri Bond myndum, en þó leiðist manni ekki yfir henni.

5

 


Langa útgáfan
:

Árið 1983 komu út tvær James Bond myndir. Aðra þeirra ættu flestir að kannast við, Octopussy, en hin er öllu gleymdari í dag: Never Say Never Again. Ástæðan fyrir því að tvær Bond myndir voru gerðar þetta árið er að þær voru gerðar af sitt hvorum aðilanum og er svolítil saga á bak við það. Við ætlum ekki að útlista hana í smáatriðum hérna (getið lesið um það hér), en í stuttu máli þá eignaðist maður að nafni Kevin McClory réttinn á sögunni sem myndin og bókin Thunderball eru byggð á þar sem sú saga átti sér upphaf í óframleiddu handriti sem hann skrifaði með Ian Fleming. McClory var ekki titlaður sem meðhöfundur þegar bókin kom út og hann fór í mál við framleiðendur sem endaði með því að hann fékk m.a. réttinn að sögunni í skaðabætur og auk þess réttinn á því að nota Ernst Stavro Blofeld og SPECTRE samtökin (sem útskýrir hvers vegna þetta tvennt svotil hvarf úr Bond seríunni í lengri tíma). Seinna meir ákvað hann síðan að hann vildi gera eigin mynd og eftir mörg ár af málaferlum og veseni endaði hann á því að framleiða Never Say Never Again, sem er hálfgerð endurgerð af Thunderball. McClory tókst meiraðsegja að fá sjálfan Sean Connery til að snúa aftur sem Bond (sem útskýrir titilinn þar sem hann var búinn að lýsa því yfir að hann myndi aldrei leika Bond aftur).

En nóg um það, hvernig er myndin sjálf?

Söguþráðurinn í myndinni er í raun mjög dæmigerður fyrir Bond mynd. SPECTRE samtökin, með Blofeld í broddi fylkingar (leikinn hér af engum öðrum en Max Von Sydow), hóta að koma af stað kjarnorkustyrjöld nema heimsveldin borgi þeim gull og græna skóga. Blofeld fær mann að nafni Largo (Klaus Maria Brandauer) til að hafa yfirumsjón með þessu kjarnorkusprengjubraski og Bond er fenginn til að leita Largo uppi og stöðva þessa árás. Leitin berst til staða á borð við Bahamaeyja, suður-Frakklands og Norður-Afríku og þarf Bond m.a. að kljást við hákarla og valkvendi að nafni Fatima Blush.

never-say-never-again-james-bond-wallpaper

Þetta er í raun mjög klassísk Bond mynd hvað efniviðinn varðar en þar sem hún er ekki framleidd af Eon Productions er reynt að skera sig frá hinni opinberu seríu auk þess sem það er ýmislegt sem ekki var hægt að nota. Það helsta sem vantar er auðvitað sjálft James Bond þemað en í staðinn fáum við einhverja ostakennda (e. cheesy) 80s tónlist. Sömuleiðis er ekkert “pre-credit” atriði heldur er opnunaratriðinu flétt saman við kreditlistann og þema-lagið spilað yfir. Þetta kemur allt saman frekar furðulega út og segir manni bara fyrst og fremst að hér sé á ferðinni 80s mynd.

Allar Bond myndirnar eru sannarlega börn síns tíma og er það oft sjarminn við þær, en þessi hefur líklega elst einna verst af þeim þó vissulega megi hafa eitthvað gaman af öllum hallærisheitunum. Eitt Never-say-never-world-dominationeftirminnilegasta, og um leið bjánalegasta, atriði myndarinnar er sena þar sem illmennið fær Bond til að keppa við sig í tölvuleik. Þessi mynd var gerð á hátindi spilakassaæðisins þannig að auðvitað varð að vera tölvuleikjasena í myndinni til að ná til yngri áhorfendanna. En að horfa á tvo menn spila tölvuleik saman hefur sjaldan verið mjög kvikmyndavænt og þótt myndin rembist eins og rjúpa við staur að gera atriðið spennandi þá hefur maður í raun frekar takmarkaða hugmynd um hvernig leikurinn sem þeir spila virkar og því erfitt að vera spenntur.

Þetta tölvuleikjaatriði kjarnar í raun vandann við Never Say Never Again. Hérna er ljóslega á ferðinni mynd gerð af eldri mönnum sem eru rosalega mikið að reyna að gera eitthvað “hip og kúl” til að höfða til yngri áhorfenda, en það heppnast mjög misvel. Tónlistina í myndinni hefur þegar verið minnst á en svo má líka nefna t.d. atriðið þar sem Bond þeysir um á ofursvölu mótorhjóli sem hann flytur með sér á milli land af einhverri ástæðu, bara svona ef vildi til að hann þyrfti að nota mótorhjól.

Þessi mynd þjáist af líku af tvennu öðru sem hrjáir allt of margar Bond myndir, hún er of löng og hún er of hæg. Söguþráðurinn kemst ekki almennilega í gang fyrr en meira en hálftími er liðinn af myndinni og sömuleiðis er lokahasarinn endalaust langur.

En þrátt fyrir alla þessa galla tekst Never Say Never Again að mestu að forðast það að vera sérstaklega leiðinleg. Því má þakka þrem hlutum. Í fyrsta lagi er Sean Connery einn mest sjarmerandi maður kvikmyndasögunnar og erfitt að hata mynd þar sem sjarmi hans fær vel að njóta sín. Í öðru lagi er þetta James Bond mynd eftir allt saman þannig að þótt hana skorti ákveðin lykileinkenni eru samt mörg önnur skemmtileg einkenni til staðar. Til dæmis notar Bond sprengjubyssupenna í myndinni og notar hann til að yfirbuga valkvendið Fatimu. Sprengjan tekur reyndar smástund að springa þannig að fyrst fáum við að sjá Fatimu hlæja brjálæðislega, og svo springur hún í loft upp! Auk þess er nóg af fallegum tökustöðum, sprengingum, aulalegum one-linerum og Bond berst við hákarla!

Síðan í þriðja lagi er myndinni leikstýrt af Irvin Kershner, manninum sem leikstýrði Empire Strikes Back. Kershner var kannski enginn “auteur” leikstjóri eins og Hitchcock eða Scorsese en hann var hinn fínasti “director for hire” og maður sem kann vel að búa til flotta ramma og láta senurnar flæða ágætlega.

Eitt enn sem er áhugavert við þessa mynd er að þarna var Sean Connery orðinn 52 ára þegar myndin var skotin og því var ákveðið að Bond væri hættur störfum og snéri aftur og oftar en einu sinni er gerð athugasemd um aldur hans og heilsu. Þetta er sérstaklega fyndið í ljósi þess að Roger Moore er þrem árum eldri en Connery og aldrei var bent á aldur hans eða heilsu!

 

Nokkur skemmtileg atriði sem vert er að minnast á í lokin.

-Fyrir þá sem héldu að Jeffrey Wright hafi verið fyrsti svarti maðurinn til að leika Felix Leiter þá er þessi mynd afsönnun þess. Hér er það eðaltöffarinn Bernie Casey sem leikur Leiter og af öllum átta leikurum sem hafa leikið hann þá er Casey klárlega sá svalasti.

-Rowan Atkinson birtist í þessari mynd sem möppudýr á vegum M! Þessi mynd var frumsýnd sama ár og Black Adder byrjaði og áður en Mr. Bean kom til sögunnar þannig að þá var hann bara eins og hver annar asnalegur breti en það er frekar steikt að sjá hann þarna í dag. Ætli hugmyndin að Johnny English hafi kviknað þarna?

-Bondgellan í þetta skiptið er leikin af engri annari en Kim Basinger sem var þá tiltölulega óþekkt og má segja að þetta hafi verið stóra “breikið” hennar í bransanum þar sem ferill hennar komst fyrst almennilega á flug fljótlega eftir að myndin kom út. Hún var í raun ein af fáum Bondgellum sem áttu alvöru feril eftir að hafa leikið Bondgellu (til viðbótar við þær sem voru þekktar fyrir eins og Halle Berry, Eva Green og Michelle Yeoh).

-Einn handritshöfunda myndarinnar er Lorenzo Semple Jr., sem er einnig þekktur fyrir að hafa m.a. skrifað handritið að hinni einstaklega “campy” Batman mynd frá 1966!

-Í einu atriði klæðist Bond smekkbuxum. Er til ó-Bondlegri klæðnaður?