Varla er hálft ár liðið frá því að seinasta Resident Evil myndin (sem bar undirtitilinn The Final Chapter) var frumsýnd og batt hún loksins langþráðan enda á túlkun Pauls W.S. Anderson. Það mun hins vegar ekki stoppa þýska framleiðslufyrirtækið Constantin Films frá því að núllstilla allt batteríið og byrja upp á nýtt með algjörri endurræsingu og kompaníið sparar ekki bjartsýnina því búið er að staðfesta heila sex bíómynda seríu.

Sjáum til með það.

Resident Evil bálkurinn er auðvitað byggður á samnefndri, stórvinsælli leikjaseríu sem hófst árið 1996 og hefur getið af sér hátt í 25 eintök síðan. Öruggt er að segja að myndirnar sem Anderson leikstýrði og framleiddi fóru heldur lauslega með uppruna sinn, og hermt er eftir heimildum sem segja að nýi myndbálkurinn verði meira í líkingu við tölvuleikina – hvað sem það nú þýðir, miðað við miklu fjölbreytni þeirra.

Serían með Jovovich á sér vissulega einhverja aðdáendur úti í heimi – ef þeir eru ekki búnir að vaxa upp úr henni þ.e.a.s. – en almennt séð hafa flestar, ef ekki allar myndirnar, fengið slakar viðtökur gagnrýnenda og fólks, eða í besta falli í kringum 35% á Rotten Tomatoes, svo dæmi sé tekið. Umræddir aðdáendur náðu þó að tryggja það að myndirnar sjö höluðu inn rúmum milljarði í dollurum á heimsvísu.

Paul W.S. Anderson kemur að öllum líkindum hvergi nálægt endurræsingunni, ef heimurinn vill vera svo góður.