JS69011482Eitt sem hefur glatt marga við Mission: Impossible seríuna er hvernig mismunandi leikstjórar hafa sett sinn eigin svip á hvert eintak: Brian De Palma, John Woo, J.J. Abrams, Brad Bird og Christopher McQuarrie hafa allir fengið að merkja formúluna með sínum stíl, og eftir að Mission: Impossible – Rogue Nation (sem af sumum er talin sú albesta í röðinni) sýndi að enn væri talsverður kraftur í spennufíklinum Ethan Hunt, voru ýmsar spár farnar að dreifast um hver yrði næsti arftakinn í leikstjórasætinu. Nafn sem dúkkaði sérstaklega oft upp var Doug Liman, sem vann með Tom Cruise að Edge of Tomorrow.

En búið var að staðfesta það fyrir skömmu að Chris McQuarrie myndi snúa aftur sem handritshöfundur að Mission 6 en með einni Twitter-færslu í gær þaggaði hann endanlega niður í orðrómunum og brýtur hann um leið hefð þessa myndbálks; hann ætlar að leikstýra M:I-6, sem líklegt er að mæti í bíó árið 2017.

Cruise er annars á fullu þessa dagana að sinna tökum á Jack Reacher: Never Go Back. McQuarrie skrifaði og leikstýrðu fyrri Reacher-myndinni en nú hefur Edward Zwick (The Last Samurai, Defiance) tekið við.

Ekki er mikið vitað um hver hársídd aðalleikarans verður, á hverju hann mun hanga eða hvernig leikhópurinn verður skipaður í Mission 6 almennt en þykir býsna öruggt að Simon Pegg, Jeremy Renner og Ving Rhames snúi aftur.

Vonum nú innilega að Rebecca Ferguson og Alec Baldwin finni einnig tíma til að slást aftur með.