Don Hahn, einn af framleiðendum hinnar klassísku Konungur Ljónanna (The Lion King) skellti veröldinni á hlið þegar hann sagði nýlega frá því að Skari væri í raun ekki bróðir Mufasa. Það kemur verulega á óvart þar sem myndin er byggð á Hamlet sögunni frægu eftir William Shakespeare þar sem það var frændi Hamlets sem drap konunginn til að krækja í krúnuna.

Framleiðandinn sagði það alltaf vitað mál af tökuliðinu og handritshöfundunum að Múfasa og Skari væru ekki bræður, einfaldlega vegna þess hvernig ljón höguðu sér í hinni villtu Afríku. Til væru tvenns konar gerðir af ljónahjörðum, þær sem væru með einu karlkyns yfirljóni sem gæfi aldrei vald sitt nema til nýs yngra og/eða sterkara ljóns sem dræpi það og svo þær þar sem eitt karlkyns aðalljón réði ríkjum, en í hjörðinni væri annað aumara karlljón sem fengi að fylgja, þar sem ekki stóð nein ógn af því vegna lélegri líkamsburða.

Þetta hljómar kunnuglega, enda talaði Skari um að Múfasa hefði fengið ,,bróðurpartinn af vöðvunum“, en það er ein af ruglingslegri setningunum sem myndin hendir frá sér til að sannfæra áhorfendur um það að ljónin tengist fjölskylduböndum. Á upprunalega málinu segir Skari: „at the shallow end of the gene pool„. Framleiðandinn Hahn segir þessa línu eiga að gefa til kynna að ljónin komi ekki frá sömu foreldrum.

En skoðum aðeins gögnin sem Disneymyndin gefur okkur.

Í fyrsta atriði Skara í myndinni er því þrýst á áhorfendur að um sé að ræða yngri bróður Múfasa. Þegar Múfasa mætir til að ræða við hið lakara ljón í önugu skapi segir Skari: „Why if it isn’t my big brother descending from on high to mingle with the commoners.“

Síðar í sama atriði þar sem Skari og Múfasa ræða fæðingu Simba, segir Zazu: ,,Sem bróðir konungs áttir þú að standa næst honum/ „Well, as slippery as your mind is, as the King’s brother *you* should’ve been first in line“ …og hver kannast ekki við það þegar Zazu talar um að það sé ,,alltaf einn slíkur í fjölskyldum“, reyndar tveir í hans, sem ná alltaf að skemma fjölskylduatburði.

Enn fremur talar Skari um að Simbi sé uppáhalds frændi hans, og Simbi minnir hann á að hann sé eini frændi hans.

Af hverju að henda fram þessum setningum ef framleiðendur og skaparar myndarinnar vissu vel að þeir væru í raun ekki bræður?

Þegar Nala útskýrir fyrir Tímoni og Púmba að Simbi hafi farið til að gera tilkall til krúnunar, þá talar hún um að Skari sé frændi Simba: „Simba’s gone back to challenge his uncle to take his place as king“. Á íslensku talar hún um Skara sem föðurbróður hans.

Það verður að segjast að þetta eru kjánalegar setningar í samhengi myndarinnar ef Skari er í raun alveg ótengdur Simba. Vissulega er hægt að vera frændi einhvers þó blóðtengsl séu ekki til, íslenskar stjúpfjölskyldur þekkja það vel, en það er fáránlegt að troða þessum fjölskyldutengslum á áhorfendur þegar 23 árum eftir að myndin kemur út, sé okkur sagt að þeir séu í raun ekki bræður og að það hafi alltaf verið vitað. Alvöru staðreynd eða leið til að koma því í kastljósið að Lion King er að koma út í endurbættri útgáfu á bluray 29. ágúst? Undirrituð er á því að um sé að ræða auglýsingaplott eða leið til að undirbúa okkur undir breytingar á sögunni sem er í endurgerðarferli.

Nú er stóra spurningin bara hvernig tengslin verða í Jon Favreau endurgerðinni sem kemur í bíó árið 2019.