Á lítinn franskan ferðamannastað við ströndina yfir hlýjasta sumartímann kemur hópur af fólki hvaðanæva að til þess að njóta sólarinnar, strandarinnar og félagsskaps hvers annars. Einn af þeim sem kemur keyrandi á pínulitlum skrítnum bíl er hávaxinn, einkennilegur, klaufalegur maður með pípu sífellt í öðru munnvikinu. Hann talar ekki beint, muldrar öðru hvoru eitthvað og hvert sem hann fer þá virðist fylgja óhöpp og uppákomur sem brjóta niður alla samfélagslega múra milli manna, stéttaskipingu, kynslóðabil og kynjamun. Þessi maður heitir Herra Hulot og er leikinn af Jacques Tati (sem einnig leikstýrir). Mr. Bean hefði aldrei orðið til ef ekki fyrir Tati (Hulot kemur fyrir í fleiri myndum Tati, þ.m.t. „Mon Oncle“, „Trafic“ og „Playtime“) en Hulot er engu að síður einstakur karakter. Hann er svo dásamlega grunlaus, grandvaralaus, saklaus og týndur. Ávallt kurteis og ávallt jafn hissa á því sem er að gerast í kringum hann (oft af hans völdum, óaðvitandi).

Það er ekki mikill söguþráður, heldur senur og atriði sem renna saman í eina heild. „Brandarinn“ (þó það sé alls ekki rétta orðið yfir svona blíðlegt „slapstick“ sem myndin bíður upp á) er mjög gjarnan ekki í forgrunninum heldur á sér stað einhverstaðar til baka eða til hliðar og myndin bendir þér ekkert endilega á það heldur treystir þér til þess að taka eftir og veita athygli.

Þessi einfalda, blíða (en jafnframt frábærlega gerða og framkvæmda) mynd er ein af mínum uppáhalds kvikmyndum allra tíma. Þegar hún byrjar og ég heyri þessa dásamlegu melódíu sem fylgir allri myndinni fjara allar mínar áhyggjur burt og skilur mig ekki eftir með neitt nema bros út í annað munnvikið.