Stutta útgáfan: Sláandi og djörf, mother! mun án efa sitja lengi eftir í minni allra þeirra sem sjá hana.

 

Langa útgáfan:

Það hefur vart farið fram hjá mörgum um þessar mundir hversu umdeild mother!, nýjasta mynd Darren Aronofsky hefur verið hjá gagnrýnendum og áhorfendum síðan hún var fyrst sýnd á kvikmyndahátiðinni í Feneyjum fyrir rúmri vikur síðan. Aronofsky, hvað þekktastur fyrir ögrandi og oftar en ekki krefjandi verk á borð við Requiem For a Dream, Black Swan og Noah leitar hér í kjarnahugmyndir og pælingar sem hafa komið fram í myndunum hans til þessa, þá helst egó, þráhyggjur og samband trúarinnar við geðheilsu og mannseðlið (þungt stöff), hnoðar þær saman og úr verður líklega flóknasta og eftirminnilegasta mynd hans til þessa.

Í mother! fylgjum við ónefndri ungri konu (Jennifer Lawrence, titluð Móðir í kreditlistanum) sem býr í stóru en ókláruðu húsi með eiginmanni sínum (Javier Bardem), skáldi með langvarandi ritstíflu. Móðir virðist eyða dögunum sínum í að gera húsið upp á meðan skáldið reynir af hálfum hug að koma nýju verki á blað, eða að minnsta kosti þangað til að ókunnugur maður bankar upp á hjá þeim um miðja nótt…

Smátriði um restina læt ég kyrr liggja, því minna sem þú veist um framvindu myndarinnar því betra.

Eins og stendur er mother! líklega ein metnaðarfullasta og áhættusamasta mynd ársins og var að vissu leyti hönnuð til að skapa umræðu og uppþot meðal áhorfenda. Meginumtök handritsins krefjast athygli og umhugsunar allra þeirra sem sjá hana, þó svo að skilaboðin séu frekar ljáð túlkun en rökræðum um hvort þau séu rétt eða röng. Aronofsky hefur þá sértstöðu inna Hollywood að geta gert myndir sem ná að kvæna saman listrænum (með stóru L-i) stílbrögðum við sálfræðióra sem jaðra við hrylling, bæði á stórmyndaskala og í minimalískari tilþrifum. Með mother! stígur leikstjórinn á nýtt svið sem minnir helst á draumkennda taugaviklun íbúðarþríleiks Roman Polanski (Repulsion, Rosemary‘s Baby og The Tenant), en þrátt fyrir að jafna (og í vissum senum stíga yfir) hæðir þeirra mynda nær strúktúrinn ekki alveg að viðhalda sama þéttleika í heildina. Myndin er þó mun persónulegri og Aronofsky virðist gera sitt ýtrasta að miðla óttum sínum og kvíða yfir í form myndarinnar á einlægan, sjálfgagnrýnin hátt.

En þrátt fyrir sterk höfundaáhrif Aronofsky er það Jennifer Lawrence sem ber þunga myndarinnar á herðum sér og gefur ótvímælanlaust eina af sínum allra sterkustu leikframmstöðum. Kvikmyndataka Matthew Libatique einblínir helst á andlit Lawrence í nærsýn og víkur aðeins frá til að víkka yfirþyrmandi tilfinningarheim hennar. Viðbrögð hennar við sífellt stigmagnandi atburðum myndarinnar eru algjörlega í fyrirrúmi og Lawrence tileinkar sér geðhræringu martraðakenndrar framvindunnar af lofverðri list.

Áberandi skortur tónlistar í myndinni veitir áhugaverðan samanburð við It, sem kaus oftar að hræða áhorfendur með yfirþyrmandi tónlist og látum. mother! hreykir sig hinsvegar af því að mynda sterka óþægindatilfinningu með snjallri kvikmyndatöku og hljóðhönnun og gerir úr því að hækka skynjun okkar á umhverfinu til að vekja húsið til lífs eins og það sé karakter út af fyrir sig.

Í sannleika sagt er ómögulegt að geta sér til um hvernig hver og einn bregst við mother!. Ekki nóg með það að bjóða upp á flöktatndi myndlíkingu sem gefur öllu tvær eða fleiri merkingar (engin ein túlkun er „rétt“, sama hvað leikstjórinn segir), heldur tekur hún líka sjálfa sig og pælingar sínar af hvílíkri alvöru að það er erfitt að skilgreina hvernig myndin vill að við bregðumst við þegar hún fer út í hálf-kómískar öfgar til að hamra heim skilaboðunum… eins og barn sem öskrar til að fá athygli, einfaldlega vegna þess að það enginn hlustar á það annars.

Það verður sannarlega áhugavert að fylgjast með hvernig álit almennings á myndinni sveiflast með tímanum, en í bili hvet ég alla til að fara og sjá mother!, því að mynd með jafn hrá leiktilþrif og jafn mikinn kjark til að virkilega ögra ratar ekki oft í bíóhús.