Seinustu árin hafa ’80’s og ’90s nostalgíur verið í yfirdrifi, þá aðallega fyrir fólk sem upplifði þessa tíma. Ef þú varst krakki eða ungmenni árið 1995 í vestræna heiminum þá eru líkurnar töluvert háar að þú hafir séð Mortal Kombat, fyrstu kvikmynd byggða á tölvuleik sem náði vinsældum og gróða eftir vonbrigðin sem voru Super Mario Bros. (’93), Double Dragon (’94) og Street Fighter (’94).

Nánast allt vann gegn framleiðslu Mortal Kombat, New Line Cinema var efins, peningarnir voru takmarkaðir og trúin á þá unga leikstjóranum Paul W.S. Anderson (þá einungis Paul Anderson), var lítil sem engin. Eftir útgáfu í bíóhúsum í ágúst 1995 þá var Mortal Kombat á toppi vinsældarlistans í Bandaríkjunum í þrjár vikur í röð og græddi fjármagnið sitt til baka á fyrstu helginni, einnig var tónlistin á toppi vinsældarlistanna og varð það vinsæl að spin-off diskur var gefinn út sem innihélt lög sem hljómuðu eins og Mortal Kombat tónlist, sá diskur varð einnig vinsæll. Mortal Kombat má eiga það að hafa bestu tónlistina í kvikmynd byggða á tölvuleik, með Street Fighter tónlistina eftir Graeme Revell rétt á eftir.

Mortal Kombat er eins 1990’s og það gerist, byggð á tölvuleik frá 1992, söguþráðurinn er algerlega galinn. Mannfólk í hversdagsheiminum er valið til að berjast í bardagakeppni á forboðinni eyju þar sem heimar mætast og örlög mannkyns eru ákveðin. Enter The Dragon (1973) á sýru, í stuttu máli. Það hafa níu keppnir verið haldnar, á kynslóðarfresti, þetta er sú tíunda. Af einhverjum ástæðum þá þarf að sigra tíu keppnir svo að illi keisarinn Shao Kahn geti ráðist á heim manna með herum sínum (sem SPOILER innan svigans, hann gerir hvort sem er í lokin eftir að hafa tapað). Af hverju þarf hver keppni að vera haldin a kynslóðarfresti? Af hverju þarf að sigra tíu keppnir?

Sagan gerir engin tilþrif til að svara einföldustu spurningum um rökfræðina, enda mundi það fjarlægja allan grunninn úr myndinni, bara ekki hugsa um það. Þessi grein er þó ekki um hversu fáranlegur söguþráðurinn er og héðan frá þá mun ég taka þessu sem sjálfssögðum þræði. Heimskan í Mortal Kombat stafar meira af samræmisleysi innan þessa fáranleika sem hún dvelur í, því jafnvel með svona fáranleika sem grunn þá þarf að vera samræmi innan fáranleikans svo myndin virki. Mortal Kombat er stórsek um heimsku og samræmisleysis en er það nóg til að eyðileggja myndina?

Áður en ég veð í það, þá lýsi ég opinberlega yfir aðdáðun minni að þessari mynd. Ekki fyrir það að vera hágæða slagsmálamynd með söguþræði, persónusköpun og sögusetningu, heldur fyrir að vera mjög trú tölvuleiknum sem hún byggist á. Myndinni er alveg sama um allt annað nema að vera fjörug útfærsla fyrir aðdáðendur tölvuleiksins, sem ég sannarlega var á þeim tíma.

Mortal Kombat kom út á nánast fullkomnum aldri fyrir mig, verandi átta ára gutti sem æfði bardagalistir á þeim tíma og kvikmyndanörd, þá uppfyllti þessi mynd allar þær kröfur sem ungi hugur minn girntist. Nostalgían er sterk og ég lít á Mortal Kombat sem eðal schlock, slæm en fjörug. Þá er kominn tími að dýfa sér í málin.

Mortal Kombat byrjar á einhverri svakalegustu opnunarkredit senu í sögu schlock/tölvuleikja kvikmynda. Robin Shou leikur Liu Kang, sem syrgir morð bróður síns við hendur illa galdramannsins Shang Tsung. Hann er drepinn í bardaga við Shang, líklega svo Liu Kang vilji hefna hans og taka þátt í Mortal Mombat. Hins vegar gerir Shang Tsung allt í sínu valdi í myndinni að slást ekki við Liu Kang þó hann sé líklegastur af öllum til að sigra hann…? Ástæður bakvið gjörðir persónna eru mjög óljósar, af hverju drepur Shang Tsung bróður Liu Kang? Af hverju velur hann Liu Kang? Valdi hann Liu Kang eða gerði einhver annar það og ef svo, hver þá?

Eftir það kynnumst við Sonyu Blade og Johnny Cage, leikin af Bridgitte Wilson-Sampras og Linden Ashby. Sonya er lögga á eftir krimmanum Kano sem hún hatar af ástríðu, Cage er frægur slagsmálaleikari sem fáir taka alvarlega sem bardagalistamann. Þau eru valin, þetta sinn er það skýrt að Shang Tsung valdi þau en af hverju er stórt spurningamerki. Rayden, leikinn af Christopher Lambert er kynntur til sögunnar, hann er „exposition“ maskína og „föðurpersóna“ þremenninganna. Hann passar einnig að keppnin sé keppt með heiðarleika og sanngirni, sem leiðir að helstu vandamálum myndarinnar.

Það sem hefst sem hefðbundin bardagakeppni með vitnum og dómara sem eru til staðar að dæma og meta, því tilgangur bardagakeppnar er að aðrir staðfesti niðurstöður bardaganna. Skyndilega og algerlega úr bláþurru, þá birtist Johnny Cage í skógi, mjög flottum tökustaði, og mætir þar Scorpion sem dregur Cage gegnum víddir í heiminn sinn og þar hefst ein af flottari bardagasenum myndarinnar.

Af hverju var Johnny Cage í einhverjum skógi? Af hverju var enginn að fylgjast með bardaganum? Hvar var Rayden? Var Scorpion skipað að brjóta keppnisreglur og slást við Cage utan keppninnar? Ef svo, af hverju var það ekki sýnt? Þessi spurning kemur aftur þegar stuttu seinna í myndinni þegar Liu Kang og Sub-Zero birtast skyndilega á afmörkuðum en jafnframt svölu setti þar sem þeir slást einir án áhorfenda eða dómara. Nema kjánalega stutt cameo hjá Princess Kitana í örfáar sekúndur þar sem hún segir Liu Kang frá leyndarmálinu að ósigri Sub-Zero.

Hvar eru áhorfendur? Hvar eru dómarar? Því seinni bardagar með Goro eiga sér stað með fjölda áhorfendum og Shang Tsung sem dómara. Cage sigrar Goro þó án þess að neinn sér þá, þetta er allt voða óskipulagt.

Seinna í myndinni, eftir að Shang Tsung rænir Sonyu Blade, sem skyndilega breytist í aumingja, þá fara þeir Liu Kang og Johnny Cage á eftir henni í undirheim keisarans Shao Kahn og Shang Tsung. Þar komast þeir í kynnum við Reptile, og bardagi hefst, en Johnny Cage tekur ekki þátt. Af hverju er alger raðgáta, hann er á staðnum, sér slagsmálin hefjast en hverfur af engri sáanlegri ástæðu. Bardaginn klárast og Liu Kang sigrar, í næstu senu er Johnny Cage skyndilega mættur með Princess Kitana í rólegt spjall við Liu Kang…?

Þetta eru aðeins helstu atriðin, það er þó til hugsanleg útskýring á þessu. Fyrir útgáfu myndarinnar voru haldnar prufusýningar, þær voru jákvæðar en sameiginleg gagnrýni flestra var skortur á bardagasenum. New Line Cinema gaf framleiðslunni meiri pening og teknar voru upp fleiri bardagasenur, þar á meðan Johnny Cage á móti Scorpion og Liu Kang á móti Reptile og/eða Liu Kang á móti Sub-Zero. Þetta útskýrir vel af hverju þessar senur eru svona handahófskenndar og passa illa í atburðarrásina.

Þetta segir einnig ýmislegt um hæfileika leikstjórans, og þó hann sé alls ekki hæfileikalaus þá er hann enginn séní í handritsuppbyggingu, persónum eða samræðum. Það er hægt að erja um hver er hans besta kvikmynd, margir segja Event Horizon (1997), sumir segja Mortal Kombat og jafnvel Soldier (1998), en það er enginn vafi að seinni myndir leikstjórans hafa sannað hversu takmarkaður hann er. Hann sýndi smá tilþrif á 90’s árunum þrátt fyrir að hafa gert frekar „meh“ kvikmyndir en síðan talsvert verri myndir síðan þá. The Three Musketeers (2011) var reyndar fáranlega fyndin froða. Mín helsta spurning varðandi þetta er, var Anderson meðvitaður um ósamræmin? Var honum alveg sama? Var mikið af upplýsingum klippt út eða bara fuck it? Who cares? Þetta er Mortal Kombat.

Þetta hafði þó engin áhrif á vinsældir Mortal Kombat í bíóhúsum eða á videóspólum, þvert á móti. Ég held að öllum hafi bara verið drullusama, enda náði myndin að fullnægja þörfum tölvuleikjafíklanna og afhenda það sem hún lofaði, slagsmálum og flottum senum. Tónlistin er frekar geggjuð, barn síns tíma eins og myndin sjálf en hún heldur myndinni uppi, þá bæði lögin og stefin samin af George S. Clinton. Praktísku brellurnar, myndatakan, klippingin, búningarnir og settin eru frekar nett. Bardagarnir eru misgóðir, en fórna oft raunsæi í þágu stíls. Kannski er ég á villigötum að búast við raunsæi í bardagasenum á Mortal Kombat kvikmynd. Tölvubrellurnar eru þó mjög tæpar, stundum fínar en oft ömurlegar og þá bendi ég sérstaklega á Reptile í eðluformi, jafnvel slæmt fyrir árið 1995.

Mortal Kombat er stórgölluð, sagan missir eiginlega allan damp í seinni hlutanum, verandi ekkert nema slagsmálasenur með litlu öðru í kringum þær. Christopher Lambert er frábær Rayden þrátt fyrir að ranglega valinn í hlutverkið, stenst það rök? Robin Shou stóð sig vel og leitt að hann fékk aldrei jafnstór hlutverk aftur í Hollywood. Linden Ashby, gleymdur leikari sem birtist í fáeinum myndum hér og þar, þar á meðal Wyatt Earp (1994), er fínn Johnny Cage. Hefði þó verið skemmtilegra að sjá Van Damme í hlutverkinu eins og upprunalega var planað enda var Johnny Cage í tölvuleiknum byggður á Van Damme. Hann neitaði víst til að gera Street Fighter, gott val?

Bridgitte Wilson-Sampras er hinsvegar stórkostlega illa valin í hlutverkið, bardagahæfileikar hennar eru litlir sem engir og bardaginn hennar við Kano er hlægilegur ef hugað er að trúverðleika. Hún er fín leikkona en upprunalega valið hún Cameron Diaz braut á sér úlnliðinn fyrir tökur og það þurfti að ráða aðra leikkonu. Mig grunar að Diaz hefði verið meira sannfærandi í hlutverkinu, allavega í slagsmálaskyni.

Hversu heimsk er Mortal Kombat? Afar, mjög, nautheimsk og fáranleg. Það getur verið uppskrift að stórslysi en einnig uppskrift af furðulegu fjöri, sem Mortal Kombat sannarlega er, allavega í mínum augum. Ég þarf þó að muna að þetta er Mortal Kombat kvikmynd byggð á tölvuleik, ég er líklega að grafa mun dýpra í rökfræðina en handritshöfundurinn og leikstjórinn gerðu á sínum tíma.

Þegar litið er á samanburð Mortal Kombat við 1997 framhaldið Mortal Kombat: Annihilation, þá er sú fyrsta art house meistaraverk í samanburði. Sjaldan hefur sést jafn hlægileg tilraun á framhald í sögu kvikmynda, en skoðandi hana aftur núna næstum tuttugu árum seinna þá er sú mynd alger hlátursveisla full af slæmum brellum, slæmum leik, slæmu handriti, nýjum leikurum sem algerlega eyðileggja persónurnar skapaðar í fyrstu myndinni og fáranlega ýktu euro-techno poppi. Nautnin var mikil. Hversu heimsk er hún? Efni í heila aðra grein.

 

THAT’S ENOUGH! – Shang Tsung