(Með/á móti er fastur liður á síðunni þar sem tveir stjórnendur með ólíkar skoðanir á tiltekinni bíómynd segja nákvæmlega það sem þeim finnst (helst í minna en 200 orðum en oft eru undantekningar) og er undir notendum komið að velja þá hlið sem er raunsærri, skemmtilegri eða meira sannfærandi. En svo er alltaf séns á því að skoðun þín sé mitt á milli)

Tæknilega séð var það Quentin Tarantino sem kom fyrstur því trendi af stað að rukka aðdáendum tvöfalt inná eina, langa bíómynd. En þetta hófst ekki almennilega fyrr en á endaspretti Harry Potter-seríunnar. Framleiðendur ákváðu að bæði að kæta aðdáendur til fulls með því að skipta lokabókinni í tvær bíóaðlaganir og nýta sér auðfenginn gróða. Strax eftirá ákvað Twilight-syrpan að kippa í sama streng, Divergent líka. Svo má ekki gleyma ofbökuðu þrískiptingu Hobbitans (en…! Annað en flestir hafa haldið fram þá voru það ekki framleiðendur í því tilfelli sem kröfðust þess, heldur Peter Jackson sjálfur).

mockingjay coverÁ föstudaginn mætir seinni hluti lokahlutans í Hunger Games-seríunni, Mockingjay: Part 2 (sem, nota bene, færir okkur seinustu frammistöðu Philips Seymour Hoffman). En lengi hefur verið deilt um það hvort sé verið að teygja á lopa með latri handritsaðlögun eða hvort lokaafraksturinn styrki eitthvað persónusköpunina á endanum.

Hunger Games myndirnar, eins og allir vita, eru stórvinsælar og auðvitað gagnrýnendavarnar – þó svo að þær hafa alflestar fengið glimrandi góða dóma. Það var aðallega þriðja myndin, Mockingjay: Part 1 sem reyndi sérstaklega á áhuga magra og var mikið gagnrýnd fyrir að vera viðburðarlítil og þunn. En á móti var henni mikið hrósað einnig fyrir að vera flott, vel leikin og áhrifarík í þunga tóni sínum. Jennifer Lawrence hættir bara ekki að heilla víst, og það er ekki ástæðulaust.

Pennarnir Sigga Clausen og Sigurjón Hilmarsson taka sitthvoru hliðina.

f0ba2bfd8f936a77d3b146acfe9443c7_L

Sigga – MEÐ:

katniss-coin-hands-mockingjayÞað væri svo auðvelt að segja að skipting Mockingjay-sögunna hafi eingöngu verið til þess að vera í takt við „Part I/II“tískuna og sækjast í hinn almáttuga dollar. Það sem margir átta sig samt ekki á er hvað við fáum miklu meira í hverjum bita sem aðdáendur bókanna kunna svo sannarlega að meta. Við fáum alla söguna, meiri dýpt og fleiri tilfinningar. Þó hasarinn sé ekki mikill í fyrri hlutanum þá er spennan yfirgnæfandi allan tímann. Þetta er upprisumynd sem kemur mikið inn á stríðsáróður og opinbera ímyndarstjórnun sem við hefðum aldrei fengið beint í æð ef myndinni hefði ekki verið skipt í tvo hluta. Við fáum til dæmis loks að sjá samband Katniss og Gale og hvers kyns persónur þau eru saman meðan Peeta er frá um tíma. Gleymum svo ekki Julianne Moore, Philip Seymour Hoffman, Elizabeth Banks, Woody Harrelson, Sam Claflin og hinn eitraði Donald Sutherland. Hver og einn fær sitt litla karaktermóment í þögninni og örvæntingunni í þessum stórgóða og býsna grimma kafla sem spennir aldeilis bogann fyrir orrustuna í Part II.

 

Sigurjón – Á MÓTI

the-hunger-games-mockingjay-part-1-3Hefurðu setið í sal og hugsað “Veistu, ég er alveg viss um að ég sé búinn að sjá þessa mynd…”? Þannig leið mér þegar ég horfði á Mockingjay, fyrir utan eitt atriði. Ég var ekki að spá í því hvort að ég hafði séð þessa mynd áður, ég var að spá í því af hverju þessi kafli væri að endurtaka sig svona oft. Takmarkið í myndinni er að koma því til skila hversu vondur forsetinn er og hversu slæmt ástandið í heiminum sé í raun og veru. Það er samt sem áður engin ástæða fyrir því að endurtaka sama atriði margoft. Ég veit bara fyrir víst að myndin fer þrisvar sinnum á stríðssvæði til að reyna sannfæra Katniss í að taka þátt í hinu heilaga stríði gegn kúgandi yfirvaldinu. Ekki nóg með þá endurtekningu heldur fær hann Peeta að koma fram í beinni útsendingu svona 15 sinnum til að segja opinberlega að það sé bara best að hætta þessum látum og haga sér bara ágætlega. Myndin reynir svo mikið að þrýsta ofan í áhorfendur hversu slæmt ástandið er að myndin verður eiginlega paródía yfir allar kvikmyndir sem snúast um byltingu gegn fasistavaldi. Þessi endir var heldur ekkert að gera neitt fyrir mig. Það hefði verið öflugara að skera myndina niður í 40 mínútna útgáfu og fylla svo í hinar 80 mínúturnar með Part 2.

 

Segðu okkur endilega hvað þér finnst, voru megin við línuna lendirðu?