Ég er 9 ára, alls staðar í kring var ég vör við plaköt, leikföng, auglýsingar og trailera að lýsa stórbrotinni mynd sem fjallaði um UPPHAFIÐ!

Meira vissi ég ekki nema að strákurinn tengdist Svarthöfða. Hélt m.a.s. á þeim tíma að Svarthöfði væri pabbi hans þar sem myndirnar með honum voru gamlar. Þegar myndin kom svo loks í bíó sat ég í troðfullum sal af fólki og börnum íklæddu Star Wars varningi með sverðin og byssurnar. Með mér var mamma mín sem þolir ekki Star Wars og litli 5 ára bróðir minn. Þetta var í sal 1 í Kringlubíó sem var á þeim tíma flottasta og tæknivæddasta bíóið með THX hljóminum. Ég man enn eftir spennunni og gleðinni að sjá þetta tímamótaverk sem átti að vera betra en allar aðrar myndir, samkæmt hæpinu, með hrikalegu illmenni vopnuðu geggjuðu sverði. Minningin er svo sterk að ég man enn eftir tímasetningu hlésins, tilfinningunni þegar Qui-Gon kveður og hrifningin sem ég hafði til hins unga Anakin (sem var jú á svipuðum aldri og ég) og hins flotta Obi-Wan.

Eftir myndina tók við margra ára hrifning af flestu Star Wars tengdu. Ég las bókina um fyrstu myndina óteljandi sinnum, söfnunarárátta hófst fyrir varningi og leikföngum og auðvitað var gömlu myndunum reddað á VHS í láni. Í dag segi ég sem betur fer því annars hefði ég eflaust misst áhugann og ástríðuna fyrir sögunni. Þegar myndin var ný var hún stórkostleg, nokkrum árum seinna var hún allt í lagi, þegar þriðja myndin kom svo út og kláraði sögubálkinn var þessi orðin hörmung. Í dag eru komin 16 ár síðan ég leit myndina fyrst og í fyrsta sinn sleppi ég henni í maraþon glápinu fyrir þá sjöundu. Því fylgir auðvitað sá léttir að þurfa ekki að umbera Jar-Jar sem ég þoldi ekki einu sinni í æsku en einnig þeim galla að missa af bardaga Darth Maul.

Þó Phantom Menace sé versta myndin í seríunni að mínu mati þá er ég afar þakklát fyrir að hafa séð hana á sínum tíma. Hún var – ótrúlegt en satt – einn af upphafsnöglunum sem byggði kvikmyndaáhugann minn og beindi mér á rétta braut. Þar kynntist ég líka Ewan McGregor en það er aldrei ókostur að hafa hann á skjánum.