Það vantar ekki metnaðinn í Michael Bay.

Vel getur verið að margt annað vanti, og fáir geta svosem fært rök fyrir því að það vanti ekki oft betra innihald í myndirnar hans. Hins vegar vita allir að þessi sprengjuóði leikstjóri elskar að hugsa stórt, svo stórt að hann virðist vera kominn með gígantísk plön fyrir mögulegt áframhald Transformers-seríunnar.

Í samtali við MTV tók hann fram að búið væri að kortleggja sögurnar fyrir heil fjórtán stykki til viðbótar. „Það er gott efni í þessu, og ég væri endilega til í að leikstýra einni af þessum sögum seinna meir,“ sagði hann, aðspurður hvort hann væri tilbúinn til að leggja þessa maskínu á hilluna.

Við erum þegar komin með fjórar Transformers myndir (og sú fimmta er væntanleg nú í sumar). Síðan má ekki gleyma „spin-off“ myndinni sem er í vinnslu sem mun einblína á Bumblebee. Sú mynd er væntanleg á næsta ári – og verður víst afsprengi leikstjórans sem gaf okkur perluna Kubo and the Two Strings. En spurning hvort Bumblebee myndin teljist með í þessari runu sem Bay er að hóta okkur með.

Á meðan Transformers myndirnar trekkja að í miðasölu er auðvitað ekkert sem stöðvar þessi plön. Kannski verður The Last Knight óvænt gleðibomba. Kannski mun serían stórgræða á því að fá til sín nýtt blóð eftir að Bay hverfur. Kannski er eitthvað útpælt „Marvel(-ish)“ plan í þessu öllu. Kannski munum við öll missa heyrnina að þessu loknu.

Aðeins tíminn mun leiða allt þetta í ljós.