Horfðu á trailer

SPOTLIGHT (2015)

Spotlight-PosterFyndið að hugsa til þess að í dag er einn stærsti brandari í sambandi við kaþólska presta barnanauðgun. Það eru til ófáir sketsar, uppistönd og fimmaura brandarar í kringum það að prestar séu barnaníðingar. Þessi ádeila og íronía varð hinsvegar til þegar það afhjúpaðist risavaxið níðingsmál hjá kaþólsku kirkjunni fyrir 14 árum. Spotlight fjallar um hópinn sem tókst að afhjúpa þetta leyndarmál og hvernig þeir fóru að því. Ég elska myndir sem ná því takmarki að gera þungt og mikið umræðuefni að dúndúrgóðri, hraðri og spennandi kvikmynd. Það er algjör list út af fyrir sig. Til að ná þessu þarf hún að vita nákvæmlega hvenær er gott að létta aðeins um sig og sækja í húmorinn, hafa flæðið nægilega ljúft og að sama skapi vita hvenær hún á að þyngja aðeins andrúmsloftið. Handritið í Spotlight nær öllum þessum markmiðum og það hjálpar verulega til hvað engin leikari virðist stíga feilspor. Þrátt fyrir að Rachel McAdams hafi reyndar haft afskaplega lítið að spreyta sig á miðað við hana þá stendur hún sig glæsilega í að vera þarna. Myndin nær að sjúga þig svo vel inn í efnið að að þig langar helst til að fara elta næsta stórmál um leið og hún klárast og afhjúpa það í DV.

 

Sigurjón Hilmarsson

Horfðu á Beikonið dansa 

CARRY ON REGARDLESS (1961)

carryonregardlessonesheetBreska myndasyrpan sem Bond á enn eftir að skáka! Þó húmorinn sé langt í frá að vera menningarlega fjölbreyttur í Carry On-seríunni stórmerkilegu verður að gefa henni heilmikið kredit fyrir dugnað og visst hugmyndaflug. Á rúmlega þremur áratugum tókst þessari breiðu grallaragrúppu að mjólka út hvorki meira né minna en þrjátíu og einni bíómynd, allar (vitanlega…) misgóðar – sumar m.a.s. andstyggilega vondar, fyrir lítinn pening og varla nein laun. En aðstandendur voru langoftast þeir sömu og þó flestir þeirra hafi verið brjóstaklípandi, perraglottandi aulabárðar fyrir framan tökuvélarnar var margt í þessu góða sprelli þeirra sem ómögulega var ekki hægt að hlæja aðeins, en bara þegar vitleysingarnir voru í réttum gír.
Af þeim 28 sjálfstæðu myndum sem ég hef persónulega séð er Carry On Regardless með þeim skemmtilegri sem ég man eftir (fyrir utan Abroad, Camping og Cabby), líklegast því hún fjallar ekki um neitt nema röð atvika sem eru hver öðrum bjánalegri. Söguþræðirnir hjá „Áfram“-genginu voru alltaf í smáum skömmtum en þessi gerði sér a.m.k. alveg grein fyrir því frá byrjun. Góðar minningar.

Tómas Valgeirsson

Horfðu á trailer 

SECRETS AND LIES (1996)

SecretsLiesAð mati undirritaðs er Secrets and Lies besta myndin hans Mike Leigh. Því minna sem ég segi um söguþráðinn hennar, því betra. Skemmtilegustu og flóknustu persónur hans er að finna hér. Það er í raun ótrúlegt hvað allir eru þrívíðir þrátt fyrir allan fjölda persóna sem prýða hvíta skjáinn.

Dramatíkin er aldrei of melankólísk, húmorinn jarðbundinn og línurnar alltaf náttúrulegar. Yndisleg mynd til að taka fyrir á rólegu sunnudagskvöldi.

 

 

Heimir Bjarnason

Horfðu á trailer

LITTLE WOMEN (1994)

Little_women_posterBókin Little Women var gefin út árið 1868 og hefur verið kvikmynduð nokkrum sinnum í gegnum áratugina en útgáfan frá 1994 er mynd dagsins í dag og mitt persónulega uppáhald. Þessi klassíska fjölskyldusaga segir frá March-systrunum sem alast upp í Concord, Massachusetts og hefst hún á árum borgarastyrjaldarinnar í Bandaríkjunum. Faðir systranna berst í stríðinu og stúlkurnar búa með móður sinni þar sem þær kljást við vandamál sín stór sem smá.

Margir eðalleikarar túlka söguna en Winona Ryder er hér fremst í flokki (enda fékk hún Óskarstilnefningu) ásamt Claire Danes, Gabriel Byrne, Susan Sarandon, Christian Bale og ungri Kirsten Dunst. Þessi mynd er vönduð í alla staði og vekur mann til umhugsunar um stöðu kvenna á þessum tíma og hversu mikið hefur breyst hvað varðar jafnrétti kynjanna. Í grunninn er þetta þó falleg fjölskyldusaga sem á erindi við alla. Mæli eindregið með henni.

Inga Rós Vatnsdal

Horfðu á trailer

MIDNIGHT IN PARIS (2011)

Midnight_in_Paris_PosterÞó að þú hatir Woody Allen þá ætti þessi að slá í gegn hjá þér. Já handritið, tökustíllinn og leikurinn angar allur af Allen en myndin er bara svo andskoti falleg og skemmtileg. Owen Wilson tekur að sér taugahrúguna sem er óviss um allt og alla í lífinu sínu og væri mest bara til í að lifa í fortíðinni með öllum þeim listamönnum sem hann dáir. Áður en hann veit af er hann kominn í tímavarp sem veitir honum óskir sínar og fær hann að sjá París í ljósi sem ekki hefur sést í tugi ára. Þetta er með ljúfari og skemmtilegri Allen myndum þar sem París er bókstaflega í aðalhlutverki. Midnight er fyndin, sjarmerandi og skemmtileg og ein af Allen myndunum sem maður hugsar oftast til. Hugmyndin um nútímamanninn sem hittir alla helstu listamenn og skáld sem hann dýrkar er fersk og algjörlega brilljant. Ekki búast við því samt að hún sé eitthvað tengd raunveruleikanum enda fer hún í allar áttir alveg frá byrjun og eyðir engum tíma í að útskýra nokkrun skapaðan hlut tengdan tímaflakkinu. Hlutir bara gerast og í þessu tilfella gerast þeir á alveg verulega skemmtilegan máta.

 

Sigurjón Hilmarsson