(Með/á móti er fastur liður á síðunni þar sem tveir stjórnendur með ólíkar skoðanir á tiltekinni bíómynd segja nákvæmlega það sem þeim finnst (helst í minna en 200 orðum en oft eru undantekningar) og er undir notendum komið að velja þá hlið sem er raunsærri, skemmtilegri eða meira sannfærandi. En svo er alltaf séns á því að skoðun þín sé mitt á milli)


Framtíðarmyndin Oblivion frá Joseph Kosinski verður alltaf þekkt undir sinni Íslandstengingu í okkar augum en þó hér sé ekki beinlínis hágæðamynd á ferðinni (skv. gagnrýnendum og almennum áhorfendum) þá á fólk til að skiptast í tvo ólíka hópa þegar kemur að henni. Og hvað er það eiginlega það sem þessir hópar hafa að segja? Ætli þetta sé fín afþreying eða óskaplega hugmyndasnauð tilraun?

obli

Heimir Bjarnason VS. Sigurjón Ingi Hilmarsson

 

Heimir segir:

gggdOblivion er ein af þessum myndum sem ég ætti ekki að fíla samkvæmt kringumstæðum. Ég fílaði ekki frumraun leikstjórans, Joseph Kosinski, en sú mynd var Tron: Legacy sem er almennt talin betri myndin af þessum tveimur. Olga Kurylenko hefur að auki alltaf farið í taugarnar á mér. Svo breytir útlit mynda ekki miklu fyrir mér. Skemmtanagildi rís ekkert svakalega þótt að pixlunum fjölgi. Ég bjóst semsagt við innihaldslausri mynd sem liti vel út. Að sumu leyti var það rétt en myndin er mun meira en það.

Tom Cruise stendur sig eins og hetja og sýnir bestu frammistöðuna sína síðan hann fór yfir á vondu hliðina í Collateral. Andrea Risborough er í sterku öðru sæti hvað leik varðar. Morgan Freeman kíkir við í stuttu aukahlutverki og hefur nákvæmlega þann skjátíma sem hann þarf. Lengur þurfti hann ekki að vera, það hefði einungis teygt lopann. Myndin er rúma tvo tíma að lengd en aldrei leiddist mér. Framvindan hélt mér á fótunum og „twistin“ komu mér lúmskt á óvart. Tónlistin er meistaralega framkvæmd og ég fann vel fyrir gæsahúðinni út alla lengdina, sérstaklega í endann. Það er ekkert leyndarmál að Oblivion lánar margt frá tugum annarra sci-fi mynda en samsetningin er of skemmtileg til að gagnrýna. Þeir sem ákveða þó að gagnrýna fá bara extra kikk úr því að leita að lánuðum pörtum í myndinni og nefna uppruna þeirra. Það vinna hreinlega allir!

 

Siggi segir:

lfdÉg hef oft predikað yfir því að Avatar hafi ekki þurft frumlegan söguþráð, hún hafi verið gullfallegt tæknilegt meistaraverk sem afrekaði margt sem engin önnur kvikmynd hefur afrekað áður. Og það er satt. Það nægir hinsvegar ekki Oblivion að hafa bara verið gullfalleg. Oblivion var mikið tekin upp hér á landi og sást það langar leiðir. Það gerir hana samt ekki góða, þrátt fyrir íslenska þjóðarstoltið sem virðist heltaka flesta íslenska gagnrýnendur. Það var önnur mynd tekin upp á Íslandi, Prometheus, og líkt og Oblivion þá gerði það hana ekki sjálfkrafa meistaraverk.

Oblivion er algjör klessa. Handritið er svo einstaklega latt að það er rifið úr öðrum miklu betri myndum. Blade Runner, Total Recall og jafnvel Planet of The Apes. Ég skil alveg ef að fólki finnist myndin góð eða skemmtileg, enda er allt ruslið falið á bakvið frábæra tónlist og listræna leikstjórn. Þó að Kosinski hafi nú tekist það miklu betur í Tron : Legacy. Nema þið séuð algjörlega heiltekin af þjóðarrunki og VERÐIÐ bara að sjá hversu fallegt Kosinski getur gert landið okkar þá mæli ég með tveggja tíma eyðslu í Oblivion. En fyrir ykkur hin þá ætti að duga að horfa aðeins út um gluggann og skella miklu betri Sci-fi mynd í tækið, kannski Terminator 2 ?

 

Jæja…

HVORU MEGIN VIÐ LÍNUNA ERT ÞÚ?