(Með/á móti er fastur liður á síðunni þar sem tveir pennar með ólíkar skoðanir á tiltekinni bíómynd segja nákvæmlega það sem þeim finnst (helst í minna en 200 orðum en oft eru undantekningar) og er undir notendum komið að velja þá hlið sem er raunsærri, skemmtilegri eða meira sannfærandi. En svo er alltaf séns á því að skoðun þín sé mitt á milli)

Það kom Íslendingum heldur betur á óvart þegar kom í ljós að vinsælasta mynd sumarsins 2012 hafi ekki verið framhald, ofurhetjumynd eða stór sumarsprengja af einhverri gerð (sérstaklega þegar Avengers, Spider-Man og Batman mættu þarna sterkir…), heldur lítil, ljúf frönsk perla um óvænta vináttu tveggja ólíkra manna. Intouchables, sem byggð er á sannri sögu, hlaut litla kynningu en spurðist hratt út og var farið að seljast upp á myndina eftir að hún hafði verið sýnd vikum saman. Bíógestir okkar kolféllu fyrir þessari mynd og sumir skelltu sér oftar en einu sinni.

intouchables

En… er myndin eins frábær og allir sögðu í fyrra eða getur verið að allir hafi verið að flykkjast á einhverja ofmetnustu mynd síðari ára? Tveir pennar Bíóvefsins taka sitthvora afstöðu, vissulega.

 

Sigurjón Ingi Hilmarsson VS. Heimir Bjarnason

 

Sigurjón segir:

intouchables11Það er auðveldlega hægt að viðurkenna það að Intouchables sé ekki frumlegasta mynd í heimi. Þetta er reyndar mjög klisjuleg saga. Tvær andstæður neyðast til þess að umgangast hvort annað. En stundum eru klisjurnar sem við þekkjum settar í svo ótrúlega sjarmerandi búning að við gleymum því algjörlega að við höfum heyrt þessa sögu oftar en við getum talið. Intouchables er ein af þeim myndum þar sem allt virðist bara smella saman. Sagan er ekki sú frumlegasta en hún er engan vegin jafn yfirborðskennd og maður heldur í fyrsta sinn. Intouchables grefur djúpt ofan í mannlega eðlið og býr til hjartnæma sögu um pörupilt sem þarf að sjá um lamaðan, ríkan eldri mann. Ólíku bakgrunnarnir og viðmiðin sem þeir hafa alist upp með bíður upp á einstaklega fyndin atvik. Omar Sy og Francois Cluzet eru líka báðir frábærir í hlutverkum sínum og eru með betri skjápörum sem hafa sést í langan tíma. Intouchables er frábær saga um hvað við séum tilbúin til að ganga langt fyrir vináttu og kærleik og hvað það þarf oft önnur augu til að sjá hluti sem við sjáum ekki sjálf. Síðasta mynd sem náði að fullkomna klisjulega sögu svona vel hét Warrior.

 

Heimir segir:

AbdelPhilliepe_filmThe Intouchables var „litla“ myndin á seinasta ári sem hreif alla Íslendinga og dró alla í bíó í rúma tvo mánuði. Þegar ég sá hana loksins skildi ég ekki þessa endalausu ást á myndinni sem þjóðin hafði. Þrátt fyrir að kalla sig sanna sögu er myndin hræðilega klisjukennd og dæmigerð. Persónurnar eru beint upp úr bókinni og sömuleiðis er þróunin þeirra. Frammistöðurnar í myndinni eru flestar fínar en Omar Sy hefði mátt tóna sig aðeins niður. Handritið á reyndar mikla sök í því. Eina stundina er hann viðkunnanlegur, hina er hann þreytt stereótýpa.
Margar góðar myndir hafa verið fyrirsjáanlegar og klisjukenndar (t.d. Warrior) en þá verða öll lykilatriðin að vera í lagi. Málið er ekki að þau séu öll misheppnuð hér. Flestallt er bara svo mikið miðjumoð í besta lagi. Myndin er hvorki nógu fyndin né dramatísk til að skilja eitthvað eftir. Þetta er bara rosalega þunn mynd sem reynir að afsaka alla gallana sína með ágætu tvíeyki. Þeir eiga sín móment en gallarnir rífa þessa mynd niður. Ég er mikill aðdáandi „feel-good“ mynda en þessi hafði lítil sem engin áhrif á mig.

 

 

HVORU MEGIN VIÐ LÍNUNA ERT ÞÚ?

Sjá einnig:

Iron Man