Það er erfitt að hafa milda skoðun á handritshöfundinum Max Landis, sérstaklega ef þú hefur fylgst með honum í viðtölum. Passjónið hans fyrir starfi sínu sést langar leiðir en háfleygi, öri og ofureinlægi persónuleikinn hans hefur seglað til sín ófáu tröllin á internetinu.

Nú þykir líklegt að margir stökkvi um borð í haturslestina gegn Max í ljósi þess að næst á dagskrá hjá honum er endurgerð á hrollvekjunni An American Werewolf in London frá 1981. Max mun skrifa og leikstýra endurgerðinni og eins og flestir vita er þetta einn af virtari gullmolum leikstjórans John Landis, pabba Max.

american-werewolf-in-london-remake-700x300

Þessi endurgerð verður önnur kvikmyndin í fullri lengd sem Max mun leikstýra en sú fyrsta var indí-myndin Me Him Her sem kom út á þessu ári. Lítið fór hins vegar fyrir henni.

downloadMax getur allavega ekki lengur kallað það ósanngjarnt að hann verði borinn saman við föður sinn þegar þessi endurgerð lítur dagsins ljós. An American Werewolf in London er af mörgum talin klassík og verður athyglisvert að sjá hvernig Max litli ætlar sér að uppfæra verkið og hvaða vinkla hann mun taka.

Max er annars vegar einn afkastamesti handritshöfundur sinnar kynslóðar og hefur skrifað myndir á borð við Chronicle, American Ultra, Mr. Right og Victor Frankenstein.

Framleiðsla endurgerðarinnar er enn á byrjunarstigi, þannig að enn er nægur tími til stefnu áður en við sjáum hvort eplið falli langt frá eikinni þegar upp er staðið með þennan varúlf.

Í millitíðinni skulum við gæða okkur á því að fylgjast með Max gubba úr gleði yfir Matrix og Gremlins 2.