Mary and Max er í hnotskurn skuggalegur og einkennilegur fjársjóður. Ekki nóg með það að hún er öðruvísi, súr og tilfinningarík – sem eru þrælfínir kostir í sjálfu sér – heldur er hún alveg ein sinnar tegundar, frábærlega hönnuð, unnin (ég hef alltaf verið stop-motion aðdáandi), oft æðislega fyndin, áhrifarík og miklu þyngri en, segjum, normið þykir hjá leirbrúðumyndum. Stórfyndin en stingur sömuleiðis fast – og lauslega byggð á sannri sögu.

Venjulega kýs ég ekki að fara of mikið út í söguþræði, en þar sem þetta er lítil mynd sem á ekki skilið litla athygli vil ég útskýra hversu óhefðbundin og alvarleg sagan er. Myndin fjallar í stuttu máli um einmana átta ára stelpu, sem lifir álíka hamingjusömu lífi og klósettskál. Hún þarf að þola einelti í skólanum – þar á meðal frá kennara sínum, leiðinlegan fæðingarblett á enni sínu og vægast sagt sorglega foreldra. Algjörlega upp úr þurru byrjar hún að skrifast á við fertugan mann, Max (sem er snilldarlega talsettur af Philip Seymour Hoffman) sem býr í New York. Hann er lifir litlu skárra lífi enda kvíða- og offitusjúklingur með Asperger-heilkenni. Þau skiptast allavega á bréfum, mynda óvenjulega vináttu og deila lífsreynslum sínum eða stóru spurningum lífsins með hinum aðilanum – og dýpka af og til sár hvors annars. Efniviðurinn snertir á umræður á borð við vanrækslu, einelti, alkohólisma og brútal félagseinangrun.

Múdið er alltaf að breytast; Stundum er myndin falleg og hjartnæm, stundum hálf ógeðfelld og sjokkerandi sorgleg, oft merkilega meinfyndin en alltaf ljúft sérvitur, hreinskilin og manneskjuleg. Svo skemmtilega skrifuð, steikt og athyglisverð. Sterk saga og með einstakari myndum ársins sem hún kom út.