Woody Allen er búinn að leikstýra u.þ.b. einni bíómynd á ári síðan 1966! Það er nokkuð magnað. Sá eini sem toppar hann er Takashi Miike en hann er ekki búinn að vera starfandi nærri því eins lengi. Manhattan er ein þekktasta mynd Allen og stendur upp úr sem ein af hans bestu. Að miklu leyti er myndin týpísk Woody Allen mynd. Þetta er grín-drama um taugaóstyrkan miðaldra gyðing sem er að vandræðast í vonlausum ástarsamböndum. Í byrjun er hann 42 ára í sambandi með 17 ára stelpu en verður hrifinn af viðhaldi besta vinarins. Þið sjáið hvert þetta stefnir.

Með leika Diane Keaton og Meryl Streep en eyjan Manhattan í New York er í raun stjarna myndarinnar. Borgin hefur aldrei verið meira heillandi. Myndatakan bætir dýpt við myndina og undirstrikar ástarsamband Allen við borgina. Sagan er fyndin og skemmtileg, í rauninni eins góð og Woody Allen mynd getur orðið.

„My analyst warned me, but you were so beautiful I got another analyst.“

Leikstjóri: Woody Allen (Bananas, Annie Hall, Husbands and Wives, Bullets Over Broadway, The Mighty Afrodite, Vicky Cristina Barcelona, Blue Jasmine)