Það var árið 2008 sem eitthvað beit mig og hefur heltekið mig ásamt mörgum öðrum síðustu ár og samkvæmt mínum heimildum er engin varanleg lækning til. Ég er auðvitað að tala um söngleikinn Mamma Mia! Sem kom út á kvikmyndaformi þetta ár og markaði stór spor hjá mér og kannski

article-1088254-028B2DB5000005DC-917_468x331einhverjum öðrum. Í stuttu máli þá fór ég á þessa mynd í bíó, ákvað að bjóða mömmu með þar sem þetta væri um mæðgur, væri söngleikur og fullt af ABBA tónlist sem hún þekkti svo vel. Með engar væntingar og bara einfalda von um afþreyingu fékk ég svo miklu meira en ég átti von á. Ég varð heltekin. Tónlistin, sagan, leikararnir, umhverfið og bara allt við þessa mynd öskraði til mín. Svo mikið að ég fór aftur á hana…. og svo einu sinni enn. Þriðja og seinasta skiptið var sing-along þar sem Regína Ósk og Hansa sungu fyrir sýninguna og komu öllum í stuð og þegar myndin hófst þá voru öll sætin tóm. Salurinn var þó troðfullur af standandi, dansandi og syngjandi áhorfendum. Það kemur mér því ekki á óvart að Mamma Mia! sé aðsóknarmesta mynd allra tíma á Íslandi.

980878_10154578728628998_4992946673094257826_o

Núna tæpum átta árum seinna er ég enn heltekin af þessari ást minni á Mamma Mia! og ABBA tónlistinni. Myndin er aldrei of langt undan, tónlistin úr myndinni fer oft í spilun og núna eru gömlu ABBA plöturnar hennar ömmu komnar upp í hillu hjá mér.

Því gera eflaust einhverjir ráð fyrir að ég hafi orðið spennt þegar ég heyrði að setja ætti upp Mamma Mia! í borgarleikhúsinu. Nei ég get ekki sagt ég hafi verið það. Í raun var ég hneyksluð á því að lögin myndu verða þýdd og sungin á íslensku, að Holy fökkin B léki Sam (hlutverk 007 Pierce Brosnan í myndinni) og loks á miðaverðinu. Fyrir einn leikhúsmiða væri hægt að kaupa myndina á Blu-ray, geisladisk, popp, alvöru kók og samt eiga klink eftir.

fhd008MIA_Pierce_Brosnan_001

Til allrar hamingju eftir endalausa umræðu um gleðina og góðu dómana sem Mamma Mia! leikhúsupplifunin færir af sér lét ég undan og fór. Eftir þriggja tíma gleðiveislu gekk ég út og fann enn einu sinni þessa tilfinningu að ég vildi horfa á þetta allt aftur, hlusta á öll lögin og bera áfram boðskapinn um að ABBA tónlist hvort sem í bíómynd eða leikhúsi gerir ekkert nema hækka gleðistuðul og stemningu.

Ég gekk út með bros á vör en með þær vangaveltur um hvernig þetta væri hægt? Hvernig getur mynd og leikrit með jafn einfalda sögu, þráðbeina tímalínu, lágmarks óvænta þætti og lögum sem samin voru af öðrum en höfundi sögunnar, löngu áður, haft þessi ótrúlegu áhrif á áhorfendur. Hvað er það við þennan söngleik sem grípur mann svona og sleppir aldrei hendinni? Ég hef ekki fundið svarið við þessum pælingum mínum nema þá kenningu að þetta sé ávanabindandi og að þú sleppur aldrei úr klóm söngelskandi drekans…. ekki það að nokkur heilvita manneskja ætti að vilja það.

mammamia2-800x501

Ég ætla ekki að segja að annað hvort myndin eða leikhúsið sé betri útgáfa af sömu sögu en það er einn kostur sem myndin hefur sem leikhúsið býður ekki upp á og það er að við getum upplifað hana aftur og aftur og aftur og aftur. Með það í huga ætlar undirrituð að slökkva á Netflix og skella Mamma Mia! í gang.