Þrátt fyrir léttan tón, líflega diskó-tónlist, stálhressa söguhetju og prýðilegt magn af gamanleikurum til skrauts er ‘Gamanmynd’ sjálfsagt ekki það fyrsta sem allir hugsa þegar The Martian kemur upp í hugann. Ef við ætluðum okkur að vera tryllt nákvæm væri hugsanlega sanngjarnt að kalla þetta ‘vísindaskáldsögudrama með kómísku ívafi’.

The_Martian_94177En þessi nýjasta mynd frá Ridley Scott mun engu að síður keppast um tilhlaupið að stóru Golden Globe-verðlaununum (s.s. Besta mynd) og samkvæmt The L.A. Times fær hún að fljóta með sem ‘Gamanmynd eða söngleikur’, þó svo að ekki enn sé formlega búið að tilkynna neinar tilnefningar. Times tekur það fram að kosið var sérstaklega um það hvorum flokknum hún tilheyrði, og munaði víst aðeins um eitt atkvæði hvaða geira hún verður merkt undir í keppninni, skildi hún ná í gegn.

Hvað Dramaflokkinn varðar hins vegar þykir ekki ólíklegt að The Revenant og Spotlight verði á meðal þeirra umtöluðustu á næsta ári. Þess vegna kemur sér vel fyrir Marsbúann að spila með hinu liðinu, þrátt fyrir að sú mynd sé á flestum stöðum talin vera ‘drama’ ofar margt annað. Á Imdb er hún hins vegar skráð „Adventure, comedy, drama.“

En alls ekki allir eru sáttir með þessa flokkun, sérstaklega ekki leikstjórinn Judd Apatow sem er sjálfur að reyna að koma sinni eigin gamanmynd, Trainwreck, inn í verðlaunakeppnina. ,,Það er asnalegt að reyna að dóminera Gamanmyndaflokkinn þegar þú ert í rauninni Drama sem er hrætt við aðra dramatíska samkeppni,“ sagði hann ákveðinn á Twitter.

Apatow gæti nú fengið ósk sína uppfyllta þar sem gamanmyndir hafa ekkert verið sérlega duglegar að rokka á þessu ári. Trainwreck verður líklegast tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna einnig, en hvernig líkur hennar eru á móti einhverju eins og The Martian eða (jafnvel) Joy verður að koma í ljós.