Þegar fyrst voru tilkynntar þær fregnir um að stór hluti leikhópsins og persónanna úr Love Actually myndi sameinast á ný í eins konar framhaldi, bjuggust kannski ekki allir við því að um væri þá aðeins að ræða stutt innslag í tilefni dags rauða nefsins.

Gerður var stuttur þáttur á vegum góðgerðarfyrirtækisins Comic Relief. Richard Curtis, leikstjóri myndarinnar, er einn af stofnendum þess og setti saman innslag sem ber heitið Red Nose Day Actually, sem kíkja má á hér að neðan.

Eins og sjá má snúa helstu persónurnar aftur – fjórtán árum eldri, að utanskildum nokkrum aðilum eins og t.d. Emmu Thompson, Martin Freeman og vissulega meistara Rickman heitnum.

Eins og búast mátti kannski við er þetta krúttaða vídeó löðrandi í mikilli „gimmick“ nálgun, gert til þess að gleðja pöpulinn með tilvísunarsprengjum (og trúlega er það til hins betra að við fengum aldrei raunverulegt framhald), en þó með góðan málstað í huga. Að minnsta kosti ættu hörðustu aðdáendur Love Actually varla að geta enst þessar 16 mínútur án þess að glotta einu sinni eða tvisvar.*

*En það er auðvitað löngu vitað að fólk sem kann ekki við Love Actually þarf grátlega á góðu faðmlagi að halda.